140. löggjafarþing — 117. fundur,  9. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[15:13]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að koma hv. þm. Eygló Harðardóttur til varnar vegna þess að ég lít svo á að hún hafi einmitt verið að beina spurningu sinni til mín í framhaldi af ræðu minni. Ræða mín kom í kjölfar ummæla hæstv. innanríkisráðherra hér fyrr í dag um skoðanakannanir. Ég fjallaði um stöðu stjórnarflokkanna í skoðanakönnunum og því þykir mér mjög eðlileg spurning hjá hv. þingmanni að leita eftir skoðun minni á ástæðu þess að fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist eins og raun ber vitni, að fylgi Vinstri grænna sé það minnsta síðan árið 2003 og að sameiginlegt fylgi stjórnarflokkanna hafi ekki mælst lægra á þessari öld. Mér þykir alveg eðlilegt að ég fái þá spurningu í framhaldinu.

Ég tel ástæðuna blasa við, ástæðan er sú að kjósendur þessara tveggja stjórnarflokka sjá að það er ekki verið að uppfylla stefnu þessara flokka. Hjá Vinstri grænum er slóð svikinna loforða, við getum nefnt Evrópusambandið. Samfylkingin lofaði uppbyggingu í atvinnumálum, lofaði að álverið í Helguvík kæmist af stað og að uppbygging í stóriðju yrði úti um allar koppagrundir. Fyrr í dag var minnst á uppbyggingu í Þingeyjarsýslunum. Auðvitað er staða ríkisstjórnarflokkanna eins og hún er núna bein afleiðing þess að loforð og stjórnarsáttmáli hafa verið svikin.

Hv. þm. Jón Bjarnason þekkir byggðapólitík Vinstri grænna betur en ég. Viðhorf mitt til þeirra breytingartillagna er að ég sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni í sumum málum, til að mynda hvað varðar aðildina að Evrópusambandinu, en ég er ekki mjög (Forseti hringir.) hrifin af breytingartillögunni eins og ég hef skilið hana.