140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

eignir SpKef.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í síðustu viku fékkst niðurstaða í ágreining ríkisins og Landsbankans vegna SpKef um virði eigna sem Landsbankinn tók þar yfir. Niðurstaðan er sú að ríkið þarf að leggja með SpKef um 19 milljarða og hefur okkur verið tjáð það síðustu daga að það verði fjármagnað með skuldabréfi þannig að heildarkostnaður ríkisins verði á endanum um 25 milljarðar.

Á fyrri stigum þessa máls þegar það fyrst kom inn á borð ríkisstjórnarinnar sagði þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, að ríkið teldi mögulegt að leysa þann vanda sem upp væri kominn án kostnaðar fyrir ríkið. Síðan leið um það bil eitt ár og í ljós kom að eignir SpKef voru annaðhvort að rýrna eða höfðu verið stórkostlega ofmetnar og okkur var tjáð að skynsamlegt væri að leggja SpKef inn í Landsbankann til að takmarka tjón ríkisins. Tjón ríkisins var þá metið á 11,2 milljarða, ef ég man rétt. Nú er þessi tala sem sagt orðin 25 milljarðar. Það sem átti í upphafi ekki að verða neitt er orðið að 25 milljörðum. Það er þess vegna afskaplega einkennilegt þegar spurningar eru bornar upp og spurt: Hvað varð um eignirnar? Ofmátu menn eignasafnið svona rosalega? Voru það hugsanlega mistök að stofna nýjan sparisjóð. Voru menn með óraunhæfar væntingar um að hægt væri að halda áfram að reka sparisjóð á þessu svæði? Var það óskynsamleg ráðstöfun að láta þann sparisjóð starfa á undanþágu í einhvern tíma? Varð eignabruni yfir þetta tímabil? Þetta eru spurningar sem eðlilegt er að spurt sé og það er ótrúlegt (Forseti hringir.) að hlusta á ráðherra í ríkisstjórn segja að þeir sem upp bera þessar spurningar séu með ómálefnalega gagnrýni. Ég kalla eftir því að við fáum einhverjar vísbendingar um hvað gerðist í þessu máli.