140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

ábyrgð á fjármálastofnunum.

[10:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að minna á minn hlut í þessu máli og hvet menn til að skoða hvað ég gerði sem hæstv. fjármálaráðherra í málefnum sparisjóðanna. Ef menn hefðu haldið áfram á þeirri braut þá værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í núna. Það er ótrúlegt að hæstv. fjármálaráðherra gengst ekki við því að bera ábyrgð á lánveitingum til VBS og Saga Capital og hæstv. fjármálaráðherra gengst heldur ekki við, þó að það sé á heimasíðu fjármálaráðuneytisins, samningum sem hann gerði við kröfuhafa Byrs. Hann gengst ekki við því. Þetta er allt einhverjum öðrum að kenna, væntanlega stjórnendum fjármálafyrirtækjanna eða einhverri annarri ríkisstjórn.

Hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra tók Byr og SpKef og hélt þeim eignarhlutum hjá sér þrátt fyrir að lög um Bankasýsluna segðu að það ætti að vera í Bankasýslunni. Allir hæstv. ráðherrar sem um þetta hafa talað hafa sagt að nauðsynlegt hafi verið og mikilvægt að hafa Bankasýsluna vegna þess að þar (Forseti hringir.) væri fagþekkingin, þannig væri best með málin farið. En hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tekur hins vegar tvær stofnanir og heldur þeim hjá sér, vill núna ekki (Forseti hringir.) kannast við málið, ekki nokkurn skapaðan hlut. En hæstv. ráðherra kemst ekki hjá því að hann ber (Forseti hringir.) ábyrgð á sínum eigin gjörðum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill enn minna á ræðutímann. Hann er ein mínúta í síðari umferð.)