140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

ábyrgð á fjármálastofnunum.

[10:51]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Allt sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði um það að ég væri að hlaupast undan ábyrgð var bull. Ég sagði ekkert af því sem hv. þingmaður gerði mér upp.

Varðandi hlut Bankasýslunnar í þessu þá var fullt samkomulag milli fjármálaráðuneytisins og Bankasýslunnar, hefur verið allan tímann og það er hægt að fá skjalfest, um að þessu yrði hagað með sama hætti og meðan samið var um endurfjármögnun stóru bankanna, að fjármálaráðuneytið yrði að leiða samninga þar um fyrir (Gripið fram í.) hönd ríkisins og reiða fram eftir atvikum það fé sem óumflýjanlegt væri að leggja fram í formi nýs hlutafjár eða nýs stofnfjár, að fjármálaráðuneytið og enginn annar en fjármálaráðuneytið gæti leitt þá samninga. En þegar endurfjármögnun væri búin á grunni samninga þá færðist eignarhluturinn yfir til Bankasýslunnar. (Gripið fram í.) Nákvæmlega svona var þetta gert í tilviki stóru bankanna þriggja. Nákvæmlega svona var þetta gert í tilviki sparisjóðanna sem Seðlabankinn tók að sér að semja um endurfjármögnun á fyrir hönd ríkisins og sama aðferð (Forseti hringir.) hefði verið viðhöfð hefðu þessar fjármálastofnanir haldið áfram (Gripið fram í.) sem sjálfstæðar stofnanir í eigu ríkisins.

Frú forseti. (Forseti hringir.) Þessi hv. þingmaður leggur fyrir mann spurningar, ræðst á mann fyrir að svara þeim ekki en gjammar svo fram í alveg stanslaust þessa seinni mínútu (Forseti hringir.) sem ég hef til að reyna að svara honum. Það lýsir hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni (Forseti hringir.) vel, hinum alþekkta áhugamanni um (Forseti hringir.) gagnsæi í fjármálum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn um að tímamörkin séu virt og biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð til að flytja mál sitt í ræðustól Alþingis.)