140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

endurreisn SpKef.

[10:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg klár á því hvort hæstv. ráðherra var að svara mér eða hv. þm. Bjarna Benediktssyni en ég kýs þann kostinn að hann hafi verið að svara Bjarna Benediktssyni því að ekki svaraði hann spurningum mínum.

Mig langar að spyrja ráðherrann að því hvort ekki hefði verið hægt að fara aðra leið, t.d. að gera sjóðinn upp og tryggja þessar innstæður. Hæstv. ráðherra talar eins og engin önnur leið hafi verið fær og ekki hafi verið hægt að tryggja innstæður fólks með öðrum hætti. Við erum alveg sammála um að það bar að tryggja þessar innstæður fyrst sú yfirlýsing var í gildi sem þá var gefin. En hvernig?

Það hefur komið fram að eigið fé þessa sjóðs var jákvætt um 5,4 milljarða 31. mars 2009. Við hljótum því að spyrja enn og aftur: Var eignasafnið stórlega ofmetið? Hefði ekki verið mögulegt að fara aðra leið með því að tryggja þá hagsmuni sem þarna voru? Hvaða mistök voru gerð af hálfu stjórnvalda vegna SpKef?