140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

viðbúnaður vegna óróa á evrusvæðinu.

[11:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að vera vitur eftir á heldur fyrir fram. Mig langar til að spyrja hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eftirfarandi vandamál. Á laugardaginn tókst að bjarga stöðu Spánar. Þetta er ein björgunaraðgerðin af mörgum frá því síðastliðið sumar og margir hafa þá trú að þessi lausn sé ekki til langframa, það þurfi að gera meira.

Það er talað um að um 70% af útflutningi okkar fari til ríkja Evrópusambandsins. Við flytjum út fisk og ál til þessara landa og fáum ferðamenn frá þeim. Það er viðbúið að hágæðavara eins og fiskur og nokkuð dýr ferðaþjónusta muni líða fyrir það ef atvinnuleysi og mikil kaupmáttarminnkun verður í þessum löndum. Fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi: Er ríkisstjórnin með áætlun um hvernig búa megi umhverfi heimila og fyrirtækja þannig að þau ráði við afleiðingarnar af því ef verður mikill samdráttur í útflutningi sjávarafurða og áls og mikill samdráttur í ferðaþjónustu?

Síðan er önnur spurning sem beint er til sjávarútvegsráðherra: Lagður er til 40 kr. veiðiskattur eða um það bil á næsta ári í stað 9 kr. núna, sem sagt rúmlega fjórföldun. Því munu fylgja mörg gjaldþrot. Er það gæfulegt þegar uppi er þessi staða í Evrópusambandinu?

Taka efnahagsáætlanir hæstv. ríkisstjórnar mið af slíkum breytingum sem kunna að verða á útflutningi okkar til Evrópusambandsins? Hér er hugsað fram í tímann.