140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að halda breytingartillögu nefndarinnar til haga.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ástæðan fyrir því að lagt er til að þessi málsgrein falli brott er einfaldlega sú að það var álit allra nefndarmanna að hún væri til þess fallin að skapa misskilning hjá þeim sem ekki þekktu til á Íslandi eða væru að kynna sér Ísland, þ.e. erlendir fjárfestar í þessu tilfelli. Ísland er réttarríki í evrópsku lagaumhverfi og hér leikur enginn vafi á því að eignarréttur manna er virtur og engin dæmi þess að hann sé fyrir borð borinn af íslenskum stjórnvöldum gagnvart erlendum fjárfestum. Það er engin saga um slíkt sem ástæða er til þess að vara sérstaklega við. Sjálfstæðir dómstólar og alþjóðlegar eftirlitsstofnanir fylgja því eftir að slíkum lagaáskilnaði sé fylgt og höfða mál gagnvart íslenskum stjórnvöldum ef einhver vafi leikur á því að rétt hafi verið staðið að málum. Þannig er réttaröryggi fjárfesta ákaflega vel tryggt, bæði í íslenskum rétti fyrir íslenskum dómstólum og eins vegna þess að landið er hluti af hinum evrópska rétti. Eftirlitsstofnun EFTA hefur hér auðvitað eftirfylgni með Evrópuréttinum og margvísleg önnur úrræði sem aðilar hafa hér með alveg sama hætti og í öðrum lýðræðislegum réttarríkjum.

Þess vegna er alger óþarfi að hafa uppi fullyrðingu í stefnu um erlenda fjárfestingu af þessu tagi. Ég held að ekkert annað land í okkar heimshluta taki það sérstaklega fram að það virði lög og reglur. Alþingi með sína löngu sögu hefur enga ástæðu til að gera það.