140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágæta yfirferð. Það skrifuðu kannski allir undir þetta nefndarálit, sumir reyndar með fyrirvara, vegna þess að það segir ekkert voðalega mikið. Öll ræða hv. þingmanns var eiginlega eins og á stjórnarfundi hjá stóru hlutafélagi þar sem menn ráðskast með þetta og hitt, nema það vill svo til að við stöndum á löggjafarsamkundu þjóðar en ekki í hlutafélagi.

Öll umræðan hjá hv. þingmanni og í nefndarálitinu fjallar um opinbera markaðsstefnu. Ríkið er að markaðssetja Ísland á þessu og hinu svæði á meðan við erum með ágætismarkaðsstarf hjá t.d. sjávarútvegsfyrirtækjum og álfyrirtækjum sem vinna hvert á sínu sviði.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji eðlilegt að á Alþingi séum við að ræða um ál og fisk og markaðsstarf þetta og markaðsstarf hitt í staðinn fyrir að setja ramma utan um atvinnulífið þannig að menn geti stundað markaðsstarf og séu ekki að senda „signal“ út í heim, eins og þegar gert var samkomulag við álverin um að greiða skatta fyrir fram og svo var ekki staðið við það og þegar menn hækka stöðugt álögur á fyrirtæki eins og á sjávarútvegsfyrirtækin núna án nokkurs tillits til þess hvernig afkoman muni verða í framtíðinni.