140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar við ræðum miðstýrð markaðskerfi eins og Kína og fleiri lönd í Asíu sem hafa mjög miðstýrt markaðskerfi getur verið eðlilegt að opinberir aðilar snúi sér til annarra opinberra aðila og víli og díli um viðskipti við þá. Ég reikna með því að á Vesturlöndum vilji þeir sem ætla að byggja gagnaver helst hafa samband við aðila sem selja t.d. orku, en hér á landi geta þeir ekki annað en snúið sér til opinberra aðila hvað það varðar. Það er kannski skýringin á því af hverju ríkisvaldið hérna er með þessi markaðsstörf og við erum að ræða á Alþingi um að selja þetta og selja hitt í staðinn fyrir að setja lagaramma utan um atvinnulífið þannig að það geti blómstrað. Það er kannski vegna þess að atvinnulíf á Íslandi er töluvert mikið miðstýrt og skipulagt af ríkinu. Það á bæði við um áliðnaðinn, sem er alfarið í eigu ríkisins, þ.e. sala á raforku sem er undirstaða áliðnaðarins, og eins sjávarútveginn að hann er skipulagður ofan frá með lögum frá Alþingi í bak og fyrir langt umfram eðlilega lagaumgjörð utan um atvinnugrein. Það að við skulum ræða hérna markaðsmál ríkisins og hvernig ríkið getur stýrt markaðsmálum hugsa ég að helgist af því að atvinnulíf hér er að töluverðu leyti í höndum ríkisins. Ég tel það vera mjög slæma þróun sem hefur ágerst alveg sérstaklega eftir hrun því að allar leiðir virðast snúa að því að ríkið skipuleggi þetta og ríkið skipuleggi hitt og skattleggi allt undir drep þannig að frumkvæði einstaklingsins fær varla þrifist lengur.