140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

stefna um beina erlenda fjárfestingu.

385. mál
[15:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek fyrst undir með hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að mikil fjölbreytni sé á Íslandi þegar kemur að atvinnumálum, mikilvægt að öll eggin séu ekki í sömu körfunni eins og hv. þingmaður benti réttilega á. Í dag byggjum við hagkerfi okkar mest á fiskveiðum, iðnaði, ferðaþjónustu og landbúnaði og hefur það dugað okkur býsna vel. Ég held að það verði þannig áfram. Við eigum hins vegar að vera opin fyrir öðrum tækifærum. Úr því að hv. þingmaður spyr sérstaklega um þetta dæmi á Grímsstöðum sagði ég í upphafi að ég skildi aldrei af hverju ekki var talað við manninn þegar þessi hugmynd kom fyrst upp. Ég var ekkert hrifinn af því að selja landið en mér fannst sjálfsagt að heyra hvað þessi ágæti maður vildi hér og hefði fram að færa. Nú er málið komið í annan farveg. Nú stendur til, ef ég skil þetta rétt, að leigja frekar lítinn hluta af landinu til að hann geti fjárfest þarna.

Ég verð bara að segja, frú forseti, að ég geri engan greinarmun á því hvort þessi ágæti maður sé frá Kína eða þótt þarna væri Þjóðverji, Frakki eða Norðmaður á ferð. Ef þeir samningar sem verða gerðir eru í lagi, ef þeir uppfylla allt sem er talið eðlilegt og fallist verður á kröfur Íslendinga sé ég ekkert að því að gera samkomulag við þennan mann frekar en einhverja aðra. Erlendir aðilar bæði eiga og leigja lönd hér úti um allar trissur, laxveiðiár og guð má vita hvað. Ef áformin eru trúverðug, ef menn treysta því að þetta gangi eftir og hafa einhverjar tryggingar fyrir því finnst mér ekki að leggja eigi stein í götu þessa verkefnis.

Svo endurtek ég það sem ég hef sagt áður í þessum stól, ég treysti líka heimamönnum þarna fyrir norðan og austan til að meta hvort þetta sé þeim í hag. Að því leytinu til get ég bara tekið undir að menn eiga að láta reyna á hvort hægt sé að ná samningum sem eru hagstæðir fyrir báða (Forseti hringir.) aðila.