140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

réttarstaða einstaklinga með kynáttunarvanda.

736. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég átti þess ekki kost að taka þátt í umræðu um þetta frumvarp til laga um réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda þegar það var rætt við 2. umr. og ætla því aðeins að taka fram nokkur atriði. Það er góð samstaða um þetta mál og það hefur verið mjög vel undirbúið á vegum ráðuneytisins, Landspítalans, landlæknisembættisins og ekki síst í góðu samstarf við samtök transfólks.

Frú forseti. Kynvitund kemur fram á fyrstu árum í ævi hvers manns. Það er ekki val eða ákvörðun að vera trans, ekki frekar en það er val að upplifa sig sem konu eða karl þegar kynvitundin vaknar. Munurinn er bara sá að transfólk er fætt í röngu kyni, í líkama annars kyns en það sjálft er, kyni sem samræmist ekki kynvitund þess.

Með því frumvarpi sem nú er hér til lokaumræða er í raun verið að staðfesta verklag sem hefur þróast á Íslandi á undanförnum tíu árum eða svo í mjög góðu samstarfi þeirra aðila sem ég nefndi áðan. Það er rétt og skylt að færa þeim sem hafa undirbúið þetta mál bestu þakkir fyrir að hafa náð svo góðri samstöðu og samvinnu um málið. Þetta frumvarp lýtur að stjórnsýslu, að meðferð umsókna um kynleiðréttingu og um afgreiðslu þeirra, tímafrestum og öðru en fyrst og fremst tryggir það rétt transfólks og öruggt ferli til kynleiðréttingar. Að þessu frumvarpi er því mikil réttarbót verði það að lögum sem ég vona svo sannarlega því að í hv. velferðarnefnd voru menn sammála um þessa lagasetningu.