140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

umhverfisábyrgð.

372. mál
[16:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns meiri hluta nefndarinnar, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, hefur þetta frumvarp fengið allítarlega meðferð í umhverfis- og samgöngunefnd og þar á undan í umhverfisnefnd á fyrra þingi. Ætlunin með frumvarpinu er að innleiða meginreglur á sviði umhverfisábyrgðar í samræmi við tilskipanir Evrópusambandsins og í meginatriðum er ekki ágreiningur um þann þátt, þ.e. um þessa innleiðingu.

Auðvitað hafa í meðförum nefndarinnar komið fram ýmsar athugasemdir, m.a. frá þeim aðilum sem tíðast standa að framkvæmdum eða bera ábyrgð á framkvæmdum, svo sem hagsmunasamtökum í atvinnulífi, sveitarfélögum og slíkum aðilum, en þeir bera nokkra ábyrgð á því hvernig framkvæmdin verður og hafa velt fyrir sér hvort hugsanlega væri á stöku stað gengið fulllangt í þessum efnum.

Ég ætlaði fyrst og fremst að fjalla um nokkur atriði frá mínum bæjardyrum séð. Í fyrsta lagi er kannski rétt að hafa í huga að þegar horft er til gildissviðs laganna skiptir máli að athuga að í 2. gr. frumvarpsins er talað um að í tilteknum tilvikum gildi það sem kallað er hlutlæg bótaábyrgð, þ.e. undir ákveðnum kringumstæðum er hægt að kalla fram ábyrgð og fá bætur frá aðilum jafnvel þó að tjónið sem verður verði ekki beinlínis rakið til saknæmrar hegðunar af þeirra hálfu. Í ákveðnum tilvikum, þegar álitið er að um sé að ræða starfsemi sem sérstök hætta stafar af eða ástæða er til að gera mjög stífar kröfur, er ábyrgðin því hlutlæg. Ef starfsemin felur t.d. í sér að einhverjum efnum er sleppt í vatn eða eitthvað þess háttar þá ber aðilinn ábyrgð á tjóninu jafnvel þó að það takist ekki að sýna fram á að viðkomandi hafi með einhverjum hætti brotið í bága við það sem telja má eðlilega eða góða hegðun við starfsemi sína.

Í II. viðauka við frumvarpið er greint frá hvaða starfsemi getur verið um að ræða. Til að gefa hv. þingmönnum vísbendingu um hvað er á ferðinni er um að ræða starfsleyfisskyldan atvinnurekstur á grundvelli tiltekinna ákvæða um hollustuhætti og mengunarvarnir, í öðru lagi losun efna í vatn sem háð er leyfi eða skráningu, vatnstaka með sama hætti, síðan framleiðsla efna og efnablandna sem snýst fyrst og fremst um hættuleg efni, því næst flutningur hættulegs eða mengandi farms, starfsemi sem leyfi þarf til samkvæmt lögum um erfðabreyttar lífverur og loks flutningur úrgangs. Þetta eru, eins og ég segi, þau atriði þar sem hlutlæg bótaábyrgð á að gilda.

Varðandi önnur atriði, eins og greinir í 2. mgr. 2. gr., eiga lögin líka við um umhverfistjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum og yfirvofandi hættu á slíku tjóni sem rekja má til annarrar atvinnustarfsemi en þeirrar sem fellur undir II. viðauka, eins og ég nefndi áðan, ef tjóni er valdið af ásetningi eða gáleysi. Í þeim tilvikum reynir á það sem kallað er í skaðabótaréttinum sakarábyrgð því að ef tjón verður annaðhvort af ásetningi eða gáleysi getur sá sem á því ber ábyrgð verið bótaskyldur.

Rétt er að hafa þann mikla greinarmun sem um ræðir í huga þegar önnur ákvæði frumvarpsins eru lesin. Hin fortakslausa ábyrgð sem er rakin í 1. mgr. 2. gr. á aðeins við á tilteknum sviðum en í öðrum tilvikum er um að ræða hefðbundna sakarábyrgð þar sem sá er látinn sæta ábyrgð sem tjóninu veldur annaðhvort af ásetningi eða gáleysi og ekki er ástæða til að gera athugasemd við það.

Í skilgreiningum er vísað til þeirra svæða sem talin eru vernduð svæði, náttúruverndarsvæði o.s.frv. Ég vil staldra sérstaklega við eitt atriði sem er kannski meginástæðan fyrir því að ég taldi mér ekki fært að skrifa undir nefndarálitið með meiri hlutanum. Það er 6. gr., 18. töluliður, þar sem fjallað er um verndaðar tegundir og náttúruverndarsvæði því að þau njóta þarna sérstakrar verndar. Í 18. tölulið eru annars vegar taldar upp þær tegundir sem teljast verndaðar og hins vegar náttúruverndarsvæði. Um þessa upptalningu er ekki margt að segja. Þetta er ósköp eðlilegt. Taldar eru upp verndaðar dýrategundir, friðlýstar lífverur og friðlýst búsvæði þeirra og önnur friðlýst svæði, svo sem þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar og náttúruvætti, og síðan afmörkuð svæði í d-lið á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt sérstökum lögum vegna náttúru eða landslags.

Við þau atriði sem talin eru upp í stafliðum a–d í 18. tölulið 6. gr. ætla ég ekki að gera athugasemdir. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort hugsanlega sé verið að ganga fulllangt með e- og f-lið. Í e-lið er bætt við að til svæða af þessu tagi teljist náttúruminjar og náttúruverndaráætlun, sem hefur verið samþykkt á Alþingi samkvæmt lögum um náttúruvernd, og í f-lið er talað um landsvæði í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar samkvæmt lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ástæða þess að ég geri þessa athugasemd er sú að ég er að velta því fyrir mér hvort það sé fulllangt gengið að veita svæðum sem talin eru upp annars vegar í náttúruverndaráætlun og hins vegar í áætluninni sem við köllum í daglegu tali rammaáætlun sömu stöðu og þeim svæðum sem hafa fengið friðlýsingu. Nú getur mjög vel komið til þess að svæði sem tilgreind eru í náttúruverndaráætlun fái einhverja slíka vernd, friðlýsingu verði breytt í þjóðgarða eða fái með einhverjum öðrum hætti slíka stöðu. Sama á við um landsvæði sem eru tilgreind í verndarflokki rammaáætlunar. Það getur vel verið að þau rök sem notuð hafa verið til þess að færa þessi svæði eða náttúruminjar inn í náttúruverndaráætlun eða inn í verndarflokk rammaáætlunar séu þess eðlis að þau megi jöfnum höndum nota til þess að rökstyðja að þau fái friðlýsingu.

Ég vildi vekja athygli á þessu í ljósi þess að þarna er þröskuldurinn, skulum við segja, fyrir því að setja náttúruminjar eða svæði annaðhvort í náttúruverndaráætlun eða verndarflokk rammaáætlunar lægri en fyrir eiginlegri friðlýsingu því að eftir að svæði eða náttúruminjar eru komnar inn í náttúruverndaráætlun þarf að eiga sér stað ákveðið ferli áður en friðlýsing nær fram að ganga með samráði, mati og slíku. Fram til þessa hefur ekki verið gengið út frá því að það sem tilgreint er í náttúruverndaráætlun eða, ef rammaáætlun nær fram að ganga, í verndarflokki hafi sömu lagalegu stöðu og það sem búið er að friðlýsa.

Ég minnist þess þegar við ræddum náttúruverndaráætlun á síðasta þingi að þá var því sjónarmiði hreyft sérstaklega, þegar svarað var athugasemdum sem komu fram af hálfu hagsmunaaðila eða sveitarfélaga, að þó að þetta væri tilgreint á náttúruverndaráætlun ætti samráð eftir að eiga sér stað og vinna sem síðar mundi eftir atvikum leiða til friðlýsingar.

Ég velti því fyrir mér hvort fulllangt sé gengið með því að veita þessum svæðum og náttúruminjum sem talin eru upp í e- og f-lið sambærilega stöðu og friðlýstum svæðum að lögum. Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti.

Ég ætla ekki að staldra lengi við þessa umræðu. Ég ætla þó að nefna að ég velti fyrir mér þeirri breytingartillögu sem kemur fram af hálfu meiri hlutans varðandi 1. mgr. 4. gr. þar sem talað er um að fella landvarnir og alþjóðaöryggi út. Það er álitamál. Á öðrum stað er talað um tjón sem verður vegna hernaðarátaka eða slíks. Ég get í sjálfu sér fallist á að það er töluverður eðlismunur á umhverfisspjöllum sem eru afleiðing hernaðar og þátta sem erfitt er að ráða við og hin venjulegu lögmál eiga kannski ekki við um. Það gegnir kannski öðru máli um starfsemi sem tengist landvörnum og alþjóðaöryggi og á sér stað á friðartímum þar sem ekki eru sömu óvæntu aðstæður eða neyðarástand heldur viðvarandi ástand. Auðvitað eiga menn að eiga möguleika á því að bregðast við því með allt öðrum hætti og koma í veg fyrir tjón með allt öðrum hætti en þegar um er að ræða eitthvað sem gerist á ófriðartímum. Ég velti engu að síður fyrir mér hvort þarna sé hugsanlega gengið of langt.

Síðan verð ég að játa það að eftir nokkra umfjöllun í nefndinni standa eftir ákveðnar spurningar í mínum huga varðandi samspil þeirra stjórnvalda sem eiga að fylgjast með á þessu sviði, fyrst og fremst Umhverfisstofnunar og síðan heilbrigðisnefnda. Ég velti fyrir mér hvort þar hefði hugsanlega mátt kveða skýrar að orði, það gæti verið einhver óskýrleiki í því.

Að lokum, hæstv. forseti, vil ég nefna að meiri hlutinn stígur ákveðið skref í átt til þess að skýra betur refsiákvæði og er það jákvætt. Lagt er til varðandi 33. gr. að refsiákvæðum verði breytt og eru breytingarnar taldar upp í þremur töluliðum. Í fyrsta lagi er sagt að það geti orðið tilefni til sekta eða fangelsis allt að tveimur árum að fara ekki að fyrirmælum eða vanrækja athafnaskyldu samkvæmt lögum þessum, í öðru lagi að vanrækja tilkynningarskyldu samkvæmt 9. og 10. gr., veita rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum sem máli skipta o.s.frv. og í þriðja lagi hindra aðgang eftirlitsaðila að lóðum, mannvirkjum og farartækjum þannig að það brjóti í bága við 25. gr. Ég mundi segja að 2. og 3. töluliðurinn væru í ágætu lagi en ég velti fyrir mér hvort 1. töluliðurinn sé nægilega skýr, þar sem aðeins er vísað til þess að fara ekki að fyrirmælum eða vanrækja athafnaskyldu samkvæmt lögum þessum, það er býsna víðtækt orðalag.

Þetta vildi ég taka fram á þessu stigi máls, hæstv. forseti. Ég tek það fram að ekki er ágreiningur um meginstefnu þessa frumvarps. Frumvarpið snýst um að innleiða í íslenskan rétt tilskipun Evrópusambandsins sem lýtur að þeirri mengunarbótareglu sem ég hygg að sé orðin tiltölulega óumdeild, þ.e. að sá sem ber ábyrgð á umhverfistjóni þurfi að bæta það. Það er ekki ágreiningur um það, en ég vildi gera athugasemdir við atriðin sem varða útfærsluna á þessu stigi máls.