140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

varnir gegn mengun hafs og stranda.

375. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Á fund nefndarinnar komu fjölmargir hagsmunaaðilar sem og aðrir sem láta sig málið varða og gáfu umsagnir um það. Málið var vel unnið að mínu mati og okkar í nefndinni. Það var vel farið yfir það og skipst á skoðunum, enda eru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu sem koma fram í nefndarálitinu þar sem tekið er mið af þeim ábendingum sem fram komu í meðferð nefndarinnar.

Með frumvarpinu er lagt til að skipað verði mengunarvarnaráð hafna sem leysi af hólmi núverandi svæðisráð. Einnig eru lagðar til aðrar breytingar sem eiga að skýra og afmarka hlutverk og verkefni viðbragðsaðila við bráðamengun. Mengunarvarnaráð á að vera formlegur samráðsvettvangur Umhverfisstofnunar og hafna um þau málefni sem varða viðbúnað og viðbrögð við bráðamengun innan hafnarsvæða, stuðla að samstarfi og samhæfingu milli hafna um viðbúnað, samræmingu viðbragðsáætlana og viðbragða við mengun, gera tillögu til Umhverfisstofnunar um uppbyggingu og endurnýjun á bráðamengunarbúnaði í höfnum landsins og koma með ábendingar og tillögur um innihald viðbragðsáætlana.

Það er mat meiri hlutans að það sé framfaraskref að setja á fót eitt mengunarvarnaráð sem þjóni öllu landinu og leggja þess í stað niður svæðisráðin. Það svið sem mengunarvarnaráði er ætlað að fjalla um skarast að nokkru leyti við það starf sem hafnaráð hefur hingað til sinnt, en frumvarp liggur fyrir Alþingi um að leggja hafnaráð niður á þskj. 300, um Farsýsluna. Meiri hlutinn áréttar að verkefni mengunarvarnaráðs fjalli eingöngu um viðbúnað og viðbrögð vegna bráðamengunar og sé ætlað að einfalda óskilvirkt kerfi svæðisráða og stuðla að nauðsynlegri samhæfingu og framþróun.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um tilkynningu um bráðamengun. Þar kemur fram að tilkynna skuli um óhöpp á sjó utan hafnarsvæða til Landhelgisgæslunnar. Meiri hlutinn bendir á að um tilkynningar um óhöpp og slys á sjó gildi lög nr. 41/2003, um vaktstöð siglinga, en meðal markmiða þeirra laga er að efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum. Einnig kemur fram í 11. gr. laganna að skipstjóri skips sem siglir um landhelgi eða efnahagslögsögu Íslands skuli, eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð, tilkynna tafarlaust um sérhvert óhapp eða slys sem hefur áhrif á öryggi áhafnar, farþega og skips, ógnar öryggi í siglingum og kann að valda mengun sjávar eða stranda Íslands. Með áherslu á skýrleika og lagasamræmi telur meiri hlutinn mikilvægt að kveða ekki á um tilkynningarskyldu til ólíkra aðila í mismunandi lögum. Slíkt getur haft í för með sér að upp komi vafi hjá tilkynningarskyldum aðilum og að árekstrar verði í störfum stjórnvalda. Meiri hlutinn leggur því til þá breytingu að óhöpp á sjó utan hafnarsvæða skuli tilkynna til vaktstöðvar siglinga í samræmi við gildandi lög.

Um aðrar breytingar og annað sem fram kom í vinnu nefndarinnar vísa ég til nefndarálitsins og breytingartillagna sem þar koma fram.