140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar og jafnframt breytingartillögum á frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál.

Tilefni þessara breytinga á lögum um húsnæðismál er að verið er að bregðast við athugasemdum sem komu fram í niðurstöðu rannsóknar Eftirlitsstofnunar EFTA á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ákvörðun Eftirlitsstofnunarinnar er í formi tilmæla til íslenskra stjórnvalda um að grípa til nauðsynlegra ráðstafana þannig að lánafyrirkomulag sjóðsins sé í samræmi við reglur EES-samningsins.

Helstu lykilatriði í breytingartillögunum snúa í fyrsta lagi að hæfisskilyrðum og hæfisreglum um rekstur fjármálafyrirtækja. Þar er lagt til að bæta inn ýmsum nýjum ákvæðum til að tryggja að hæfisskilyrði fulltrúa í stjórn Íbúðalánasjóðs séu í samræmi við þau skilyrði sem gilda í öðrum sambærilegum stofnunum. Eftir yfirferð á málinu leggur meiri hlutinn til í annarri breytingartillögu sinni að bæta sérstaklega við ákvæði um að gerð sé krafa um að stjórnarmenn og forstjóri Íbúðalánasjóðs fari í gegnum sambærilegt hæfismat og Fjármálaeftirlitið gerir kröfur um hjá öðrum fjármálastofnunum.

Í öðru lagi er í þessum breytingartillögum horft til breytinga á lánveitingum og lánareglum Íbúðalánasjóðs. Þannig er lagt til að aðeins verði heimilt að veita einstaklingum lán til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði. Þá er einnig lagt til að lán frá Íbúðalánasjóði fari ekki yfir 80% af matsverði fasteignar í stað 90% áður. Hér er þó í raun og veru ekki um breytingu á framkvæmd að ræða því að samkvæmt núgildandi reglugerð um lánshlutfall og fjárhæð Íbúðalánasjóðsveðbréfa hefur verið miðað við 80% lánshlutfall frá árinu 2007. Einnig er lagt til að hámarksfjárhæð Íbúðalánasjóðsveðbréfa geti ekki verið lægri en 40% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Með þessum breytingum verður Íbúðalánasjóði óheimilt að lána til kaupa á fasteign sem er með fasteignamat hærra en 50 millj. kr., en í greinargerð með frumvarpinu og í yfirferð nefndarinnar kom fram að þrátt fyrir þetta ákvæði muni yfir 96% alls íbúðarhúsnæðis á landinu áfram vera lánshæft hjá Íbúðalánasjóði.

Annað stórt atriði sem kemur inn í þessar breytingar núna er vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast á fasteignamarkaði eftir hrunið haustið 2008. Íbúðalánasjóður hefur þurft að leysa til sín og taka yfir fjöldann allan af íbúðarhúsnæði vítt og breitt um landið og hefur setið uppi með húsnæði í margvíslegu mismunandi ástandi, sumt tilbúið til notkunar, annað hálfkarað. Sjóðurinn hefur ekki verið reiðubúinn til þess að verðfella þessar eignir með því að setja þær allar beint í sölu á markaði heldur hefur óskað eftir því að geta komið þeim í útleigu. Hann hefur þurft að eiga samskipti og samráð meðal annars við Samkeppniseftirlitið um hvernig slíkum málum sé háttað svo þau standist samkeppnisreglur og -sjónarmið gagnvart öðrum aðilum á þessum markaði. Við höfum tekið þá umræðu meðal annars hér í þingsal hvernig þau mál líta út en hér er lögð til sú grundvallarbreyting að sjóðurinn hafi heimild til þess að eiga og reka leigufélag með þær eignir sem sjóðurinn hefur eignast með fullnustuaðgerðum.

Það er ekkert launungarmál að skiptar skoðanir hafa verið um þetta ákvæði og að slík heimild sé fengin fyrir sjóðinn. Nefndin hefur farið ítarlega yfir þau mál og horft til allra þátta í þeim efnum og meiri hluti nefndarinnar telur rétt að árétta í nefndaráliti sínu að hér sé um tímabundna ráðstöfun að ræða og eingöngu til þess að tryggja að hægt sé að halda fullu verðgildi á þessum eignum í stað þess að demba þeim öllum út á markað. Menn hafa tekið undir þau sjónarmið að rétt sé að haga málum þannig.

Í öðru lagi áréttar meiri hluti nefndarinnar að leigufélag þetta verði sjálfstætt að því leyti að stjórnarmenn þess séu ekki jafnframt stjórnarmenn eða stjórnendur Íbúðalánasjóðs.

Að lokum eru lagðar til í þessu frumvarpi þær breytingar á lánveitingum Íbúðalánasjóðs til leigufélaga að Íbúðalánasjóði sé heimilt að veita sveitarfélögum, félögum og félagasamtökum, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni og hafa það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis, lán til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Meiri hluti nefndarinnar telur rétt að árétta þann skilning að undir félög sem hafa það að langtímamarkmiði að eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis falli einnig búseturéttarfélög og húsnæðissamvinnufélög, enda sé rekstri þessara félaga þannig háttað að hagnaði af rekstri þeirra sé varið í þágu félagsins en ekki til arðgreiðslna.

Með þessum breytingum er meðal annars verið að koma í veg fyrir það að menn, eins og þeir hafa gert í ýmsum tilfellum eins og kunnugt er, nýti sér þau kjör sem hafa verið á lánum til leiguhúsnæðis en það leiguhúsnæði hefur svo fljótlega eftir að framkvæmdir hafa farið af stað eða stuttu eftir að íbúðir eru fullgerðar, verið komið í markaðssölu. Lykilatriði er því að tryggja að þessar sértæku lánveitingar renni til aðila sem eru raunverulega að byggja upp leigumarkað.

Ég hef farið yfir þetta nánast á hlaupum en þetta eru lykilatriði í þessu frumvarpi ásamt þeim breytingartillögum sem ég hef kynnt um hæfismat.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita auk þess sem hér talar hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján L. Möller og Björgvin G. Sigurðsson.