140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð yfir nefndarálitið. Mig langar til að spyrja um hvort nefndin hafi rætt þann vanda þegar um er að ræða lánveitingar með öðru láni sem hvílir á eigninni á undan og það lán er með mjög háum vöxtum, af því að ársgreiðslur af lánum eru tengdar vöxtum og upphæð lánsins og að sjálfsögðu lengd lánstíma. Mér skilst að Íbúðalánasjóður kanni að sjálfsögðu upphæð lánsins sem hvílir á eigninni á undan láni frá sjóðnum. Hann fái nákvæmlega sömu ársgreiðslu út til 40 ára með mjög háum vöxtum á undan án þess að lánsupphæðin sé mjög há. Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur spurningin varðar leigufélög sem eru sjálfseignarstofnanir. Ef byggingameistari er búinn að byggja mikið af íbúðum sem hann þarf endilega að losna við getur hann selt þær félagi sem hann stofnar, sem er sjálfseignarstofnun. Hann selur allar eignirnar á þokkalegu verði, fær lán til þess, en svo fer sjálfseignarstofnunin á hausinn. Hefur nefndin farið í gegnum það vandamál?

Svo skilst mér að aðalvandi Íbúðalánasjóðs sé misræmi á milli þeirra lána sem hann veitir og þeirra lána sem hann tekur. Hefur nefndin rætt það að koma á samræmi þarna á milli þannig að það sé uppgreiðslumöguleiki á lánum sem hann kaupir eða tekur á markaði í samræmi við þau lán sem hann veitir? Þau hafa mörg hver uppgreiðsluákvæði, ef menn velja hærri vextina, 4,9%, eða eru með álagi, og hvort það sé þá sambærilegt álag á innlánum því að þarna mynduðust 30 milljarðarnir sem ríkissjóður þurfti að leggja til sjóðsins.