140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi „non-profit“ félög eða félög sem ekki eiga að skila hagnaði, menn geta að sjálfsögðu stofnað svoleiðis félög. Byggingameistarar geta stofnað þannig félög og þess vegna nefndi ég sjálfseignarstofnanir — þær eru „non-profit“ — og selt þeim. Vandinn er sá hverjir mega selja slíkum stofnunum og hverjum Íbúðalánasjóður er á endanum að lána. Hann er að lána þeim sem selur en ekki endilega þeim sem á eignina.

Varðandi kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA tel ég að við þurfum að gæta okkar á því að Íbúðalánasjóður sé ekki heldur heftur í samkeppninni. Allir bankar í landinu mundu örugglega meta vextina á áhvílandi lánum á undan, en mér skilst að Íbúðalánasjóður geri það ekki og sé það jafnvel ekki heimilt. Hann taki bara eftirstöðvar með áföllnum vöxtum og verðbótum en ekki hvaða vextir eru áhvílandi á láninu sem geta hækkað upp skuldina til framtíðar.

Eins er með útlánin inn og út, ég hugsa að allir skynsamir bankamenn séu með jafnræði þarna á milli eða að minnsta kosti áhættudreifingu á því hvernig inn- og útlánin falla saman. Mér finnst að Íbúðalánasjóður þurfi að hafa slíkt tæki líka í höndunum svo að hann sé ekki verr settur en bankarnir sem hann keppir við að þessu leyti.