140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[17:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Örstutt um þetta nefndarálit og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1999, um húsnæðismál, með síðari breytingum. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar er hér verið að bregðast við þeim athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert varðandi Íbúðalánasjóð, hvort hann sé í beinni samkeppni og raski samkeppnisstöðu annarra með því.

Nú er komið í ljós að eftir þær breytingar sem hér eru lagðar til mun Íbúðalánasjóður engu að síður geta lánað til allt að 96,3% þeirra sem þurfa á lánum að halda. Það hlýtur að segja manni að það sé ríkisstyrktur sjóður sem getur lánað svo mörgum og það hljóti að vera eitthvað athugavert við verkefnið sjálft þegar „samkeppnin“ er eingöngu um 3,7% af þeim sem íhuga að taka lán til íbúðakaupa. Það kom ekki fram í nefndinni hvort sú staða sem nú er komin upp, að Íbúðalánasjóður geti veitt allt að 96,3% allra þeirra sem huga að lántöku lán vegna íbúðarkaupa, standist kröfur Eftirlitsstofnunar EFTA. Ég var ein þeirra sem mæltu gegn því að málið yrði tekið út úr nefnd og ég óska eftir því að málið verði aftur tekið inn til nefndar og það verði kannað með einhverjum sem þekkir vel til Evrópuréttar hvort að með þeim breytingum sem hér eru gerðar sé komið til móts við þær athugasemdir sem borist hafa frá Eftirlitsstofnun EFTA og hvort við stöndumst þær kröfur sem á okkur eru gerðar.

Þar að auki hefur oft verið nefnt að Íbúðalánasjóður þurfi að vera starfandi meðal annars vegna þess að bankarnir hafi almennt ekki verið tilbúnir til þess að veita lán til íbúðarkaupa utan höfuðborgarsvæðis. Við höfum kallað eftir því að það væri kannað hvernig sú staða er, hversu mikið af lánum Íbúðalánasjóðs er á landsbyggðinni versus höfuðborgarsvæðið og hversu mikið af lánum bankanna er á höfuðborgarsvæðinu versus landsbyggðin. Þetta hefur ekki fengist enn og væri æskilegt að fá til þess að það komi ljós hvort slíkar fullyrðingar standist.

Í öðru lagi, virðulegur forseti, orkar það að mínu mati í það minnsta tvímælis að Íbúðalánasjóður geti stofnað leigufélag, eins og áætlað er, um allar þær íbúðir sem hann á eða hefur tekið til sín með fullnustukröfum, sem eru allt að 2.000 íbúðir vítt og breitt um landið. Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að Íbúðalánasjóður þurfti að leysa til sín æðimargar íbúðir áður en hrunið varð þannig að það er ekkert nýtt í sjálfu sér að Íbúðalánasjóður þurfi að leysa til sín íbúðir, og þær voru víða um land. Það væri gott að vita hvar þessar 2.000 íbúðir eru, eru þær aðallega á höfuðborgarsvæðinu og þá vegna hrunsins, af því að mest var byggt á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma, eða eru þær vítt og breitt um landið? Að heimila Íbúðalánasjóði að eiga og reka leigufélag, virðulegur forseti, hugsanlega í samkeppni við þá sem hann hefur lánað til, er nokkuð sem ég held að við hljótum að þurfa að láta Samkeppniseftirlitið skoða til að athuga hvort þetta sé í raun og veru í lagi. Ég tel að minnsta kosti að það orki verulega tvímælis að ríkið og Íbúðalánasjóður eigi að vera eigendur að slíku fyrirtæki þó svo að það sé dótturfyrirtæki og gert sé ráð fyrir því að þeir sem þar sitja í stjórn séu ekki einnig í stjórn Íbúðalánasjóðs. Í það minnsta, virðulegur forseti, svo að ég noti ekki mjög stór orð í þessari umræðu þar eð við ætlum að reyna að ljúka þessu hið fyrsta, orkar þetta tvímælis í mínum huga.

Það kemur fram á bls. 3 í nefndarálitinu að heimilt sé að veita einnig búseturéttarfélögum og húsnæðissamvinnufélögum lán til þess að byggja leiguhúsnæði og ég ætla ekki að fetta fingur út í það að svo komnu máli, virðulegur forseti, en að Íbúðalánasjóður og ríkið sjálft eigi og reki leigu fyrirtæki í samkeppni við þá sem Íbúðalánasjóður hefur lánað til er ekki mér að skapi. Ég óska eftir því að málið verði kallað til nefndar og þetta tvennt skoðað.

Gagnrýni mín á þetta frumvarp hefur verið í forgrunni en ég ætla engu að síður að nefna að lokum það sem er jákvætt í því, og það er að inn sé komið ákvæði um hæfisskilyrði og hæfisreglur, hvort heldur er um forstjóra eða aðra í stjórn. Það er af hinu góða. Það er vaninn ef maður gagnrýnir að leita líka þess sem er gott, og þetta er gott, virðulegur forseti.