140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1464 og breytingartillögum á þskj. 1465 frá meiri hluta velferðarnefndar um frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Markmið þessa frumvarps, herra forseti, er að draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði, draga úr örorkubyrði og draga úr nýgengi örorku. Menn þekkja aðdragandann að þessari lagasetningu. Tilurð frumvarpsins má rekja til kjarasamninga sem gerðir voru á árinu 2008. Vilji ríkisstjórnar var ítrekaður í stöðugleikasáttmálanum á árinu 2009 og í yfirlýsingu hennar í tengslum við kjarasamninga frá 5. maí 2011 kemur fram að stefna ríkisstjórnar sé að lögfesta skyldu allra launagreiðenda til að greiða 0,13% iðgjald til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs og á móti komi samsvarandi greiðsla frá lífeyrissjóðunum og ríkinu. Með þessu frumvarpi er ætlunin að standa við þær yfirlýsingar sem rekja má aftur til ársins 2008.

Í þessari rammalöggjöf er tekið utan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem bjóða atvinnutengda starfsendurhæfingu. Í fyrsta lagi er fjallað um það hverjir það eru sem eiga rétt á þjónustunni, hverjir eru tryggðir. Almennt má segja að þeir sem eru á vinnumarkaði séu tryggðir með greiðslu iðgjalds frá vinnuveitendum, auk þeirra sem líka eru tryggðir sem fá greiðslur úr nánar tilgreindum sjóðum, svo sem sjúkrasjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. Einnig hefur verið gert ráð fyrir því að með sérstökum samningi við ráðherra verði aðilar utan vinnumarkaðarins tryggðir.

Að þessu sögðu er rétt að vekja athygli á því að sett eru nokkur skilyrði fyrir þjónustu starfsendurhæfingarsjóða í frumvarpinu almennt hvað lýtur að heilsubresti og þátttöku á vinnumarkaði en einnig þau skilyrði að starfsendurhæfingin sé líkleg til að skila árangri á þeim tíma sem hún er veitt og að einstaklingurinn sem nýtur hennar hafi vilja og getu til að taka markvissan þátt í endurhæfingunni og fylgja eftir áætlun sem sett er fram þar um.

Í öðru lagi er með frumvarpinu kveðið á um framlag til starfsendurhæfingarsjóða og það verði þrískipt, eins og menn þekkja, á milli atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkissjóðs. Framlag ríkisins verði 0,13% af gjaldstofni tryggingagjalds og framlag atvinnurekenda verði 0,13% af stofni til iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ríkið skal greiða sitt framlag eftir á í október ár hvert og það skal skiptast á milli starfsendurhæfingarsjóða á grundvelli hlutdeildar hvers sjóðs í heildarútgjöldum næstliðins árs. Miðað við tryggingagjaldsstofn sem var til grundvallar í fjárlögum ársins 2012 er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs verði tæplega 1.200 millj. kr. á ársgrundvelli.

Í þriðja lagi er fjallað um það hvernig þessir starfsendurhæfingarsjóðir skuli starfa. Þeir skulu vera sjálfseignarstofnanir og að baki þeim standi að lágmarki 10.000 manns.

Í fjórða lagi er fjallað um framlag lífeyrissjóðanna, herra forseti, og tekið fram að á árunum 2012–2015 skuli framlag þeirra ekki núvirt við tryggingafræðilega athugun á fjárhæð sjóðanna sem framkvæmd er lögum samkvæmt einu sinni á ári. Með þessu er átt við að þegar slík athugun fer fram sé ekki gert ráð fyrir því að framlögin verði til frambúðar. Ef gert væri ráð fyrir því mundu lífeyrisskuldbindingar sjóðanna aukast umtalsvert sem gæti leitt til skerðingar lífeyrisréttinda. Reynt er að draga úr þeirri hættu með bráðabirgðaákvæði þess efnis að framlög atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins, þessara þriggja aðila sem standa að fjármögnun sjóðanna, verði endurskoðuð fyrir árslok 2014 og þá verði meðal annars kannað hver áhrifin af starfsemi sjóðanna hafi verið á örorkubyrði lífeyrissjóðanna og almannatryggingar og hvort framlög til sjóðanna hafi skilað tilætluðum árangri. Við þetta bráðabirgðaákvæði gerir meiri hluti nefndarinnar breytingartillögu sem ég kem nánar að á eftir og hún felst í því að framlögin skulu vera endurskoðuð fyrir árslok 2014 en áhrifin af starfsemi sjóðanna skuli könnuð fyrir árslok 2016.

Það kemur fram í upphafi nefndarálitsins að á fund nefndarinnar komu fjölmargir gestir og margar umsagnir bárust. Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingartillögur eins og ég nefndi áðan, meðal annars til að mæta gagnrýni sem fram kom á frumvarpið. Ég vil fyrst nefna að gerð var athugasemd við það að líklegt væri að með þessu frumvarpi væri komið á tvöföldu kerfi endurhæfingar í landinu. Annars vegar læknisfræðilegri endurhæfingu á vegum heilbrigðisþjónustunnar og hins vegar atvinnutengdri starfsendurhæfingu sem við ræðum hér á vegum starfsendurhæfingarsjóða. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við það að tilteknir hópar sjúklinga sem þyrftu á endurhæfingu að halda ættu ekki rétt til atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á grundvelli frumvarpsins.

Ég minni aftur á að í 11. gr. frumvarpsins kemur fram hverjir eru tryggðir og hvaða skilyrði þarf að uppfylla til þess að njóta þjónustu starfsendurhæfingarsjóðanna. Meðal annars er skilyrði fyrir þjónustu þeirra að viðkomandi stefni að endurkomu á vinnumarkað, en ekki sjúkdómsgreiningin sem slík. Það þýðir að almennt skiptir ekki máli hvað hrjáir viðkomandi við mat á því hvort hann eigi rétt á þjónustu sjóðanna. Aftur á móti eiga þeir einstaklingar sem ekki hyggja á endurkomu á vinnumarkað eða mjög ólíklegt er að snúi aftur á vinnumarkað almennt ekki rétt á þjónustu sjóðanna. Þeir eiga hins vegar hér eftir sem hingað til rétt á viðeigandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og svo er um hnúta búið að þeim sem leita til starfsendurhæfingarsjóðanna og eiga ekki rétt þar verður vísað til viðeigandi aðila í heilbrigðiskerfinu. Ég ítreka aftur að þeir sem standa utan vinnumarkaðar, þar á meðal þeir sem fá greiddan endurhæfingarlífeyri á grundvelli laga um félagslega aðstoð, örorkulífeyri og þeir sem fá fjárhagsaðstoð frá félagsþjónustu sveitarfélaga, uppfylli þeir að öðru leyti almenn skilyrði, munu geta notið þjónustu sjóðanna, þar sem þeir sem hyggjast standa að stofnun starfsendurhæfingarsjóðs skulu gera samning við ráðherra um þjónustu sjóðsins við þessa einstaklinga.

Herra forseti. Við umfjöllun í nefndinni kom fram sá misskilningur að það væru starfsendurhæfingarsjóðirnir sjálfir sem ættu að veita þessa þjónustu í formi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Í nefndaráliti er áréttað að svo er ekki heldur muni sjóðirnir kaupa þá þjónustu frá þriðja aðila og að á vegum þeirra muni verða starfandi ráðgjafar og sérfræðiteymi til þess að meta þörf einstaklings fyrir starfsendurhæfingu og hvort hann uppfylli skilyrði laganna.

Í athugasemdum var bent á að í 13. gr. frumvarpsins segir að að baki hverjum sjóði skuli standa minnst 10.000 launamenn eða þeir sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Þessi lágmarksstærð sjóðanna gerir það að verkum að almennt verður ekki hægt að starfrækja sérstaka sjóði sem starfa aðeins í tilteknum landshlutum, talan er það há. Nefndin fjallaði ítarlega um þetta og meiri hlutinn telur að þessi lágmarksstærð, 10.000 manns að baki hverjum sjóði, sé nauðsynleg svo hagkvæmt sé að hafa þá yfirbyggingu, fjölda ráðgjafa og fagþekkingu sem er nauðsynleg til þess að starfsendurhæfingarsjóðirnir geti starfað eðlilega.

Herra forseti. Nefndin fékk til sín gesti sem sögðu frá hinni miklu uppbyggingu sem orðið hefur í starfsemi starfsendurhæfingarstöðva úti um land og fjallaði mikið um þetta. Auk starfsendurhæfingarstöðva sem hafa sprottið upp víðs vegar um landið eru starfandi endurhæfingarstöðvar sem sinna læknisfræðilegri endurhæfingu, starfa á gömlum grunni, svo sem Reykjalundur, og eru reknar fyrir fjárveitingar frá ríkinu og eru sjálfseignarstofnanir eins og menn þekkja. Að mati nefndarinnar er afar mikilvægt að samþykkt þessa frumvarps hafi ekki neikvæð áhrif á starfsskilyrði starfandi endurhæfingarstöðva, hvort sem um læknisfræðilega endurhæfingu er að ræða eða starfsendurhæfingu.

Þá er einnig mikilvægt að tryggt sé að starfsendurhæfingarstöðvar verði starfræktar á landsbyggðinni svo að þeir sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda geti sótt þjónustuna í sinni heimabyggð. Leggur meiri hlutinn til breytingartillögu á 10. gr. frumvarpsins þess efnis og áréttar að það er afar mikilvægt að gott samstarf verði milli starfsendurhæfingarsjóða og ráðgjafa og sérfræðinga þeirra og starfsendurhæfingarstöðva. Með samstarfi þeirra aðila sem starfa við atvinnutengda starfsendurhæfingu og þeirra sem borga fyrir þjónustuna má tryggja góða og fjölbreytta þjónustu og jafnframt að fjármunir nýtist sem best.

Herra forseti. Í gildi eru þjónustusamningar milli velferðarráðuneytisins og starfsendurhæfingarstöðva víðs vegar um landið. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir því að VIRK Starfsendurhæfingarsjóður taki að mestu leyti yfir þá samninga vegna þeirra einstaklinga sem uppfylla skilyrði samkvæmt lögum þessum. Það er ljóst að ekki munu allir sem í dag njóta starfsendurhæfingar á vegum stöðvanna uppfylla þessi skilyrði. Því er fyrirhugað að setja á laggirnar sérstakt teymi til þess að fara yfir stöðu þeirra og einnig til að taka um það ákvörðun hvort þeir fá þjónustu á grundvelli samninga sem velferðarráðuneytið mun halda áfram að vera með við þjónustuaðila.

Eins og ég nefndi áðan er reiknað með að framlög til starfsendurhæfingarsjóðanna verði þrískipt og framlag ríkisins geti numið tæplega 1.200 millj. kr. á ársgrundvelli á verðlagi þessa árs. Þetta þýðir, herra forseti, að verði frumvarpið óbreytt að lögum munu framlög til starfsendurhæfingarsjóða á árinu 2013 nema 3,5 milljörðum kr. Samkvæmt áætlun fyrir árið 2012 munu útgjöld VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs nema 750 millj. kr. Auk þess kom fram fyrir nefndinni að VIRK á nú tæpan milljarð í varasjóði. Meiri hlutinn telur að til þess að sjóðurinn geti nýtt þetta mikla fjármagn á markvissan hátt þurfi að liggja fyrir áætlun um starfsemi sjóðsins. Því leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar hvað varðar greiðsluskyldu ríkissjóðs. Greiðsluskyldan komi inn í þremur áföngum en ekki tveimur, og það er gert með því í fyrsta lagi að fresta gildistökunni til 1. október nk. sem hefur þau áhrif að ríkissjóður mun í október 2013 greiða fyrir sem nemur einum fjórða hluta af framlagi á ársgrundvelli fyrir árið 2012. Samkvæmt tillögu meiri hlutans mun greiðsluskyldan fyrir árið 2013 nema þremur fjórðu hlutum. Fyrir árið 2014 mun ríkissjóður greiða fullt framlag og verður kerfið frá og með þeim tíma fullfjármagnað, en ég vek athygli á því að framlag ríkissjóðs greiðist alltaf í október árið eftir.

Þessi breyting er sett fram, herra forseti, til þess að að skapa VIRK Starfsendurhæfingarsjóði ákveðið svigrúm til áætlanagerðar svo nýta megi fjármagnið sem best.

Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um skyldu starfsendurhæfingarsjóða til að halda nauðsynlegan varasjóð til þess að mæta sveiflum í rekstri og í athugasemdum kemur fram að varasjóður geti að jafnaði svarað til sex til tólf mánaða útgjalda hlutaðeigandi sjóðs. Eins og ég nefndi áðan hefur VIRK nú þegar um einn milljarð í varasjóði. Árleg velta starfsendurhæfingarsjóðanna getur orðið veruleg og varasjóður gæti því hæglega hlaupið á milljörðum króna. Í athugasemdum, meðal annars frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, kom fram að það samrýmdist ekki hlutverki sjóðanna að safna svo miklum varasjóði og hafa af honum vaxtatekjur. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og leggur til þá breytingu að 3. mgr. 15. gr., sem fjallar um þessa skyldu til að halda varasjóð, verði felld úr frumvarpinu.

Að lokum, herra forseti, leggur meiri hlutinn til, eins og ég nefndi áðan, breytingar sem varða endurskoðun á framlögum og mati á áhrifum eða árangri sjóðsins. Byggjast tillögurnar á því að með því að kerfið verður ekki fullfjármagnað fyrr en á árinu 2015 sé eðlilegt að fyrir árslok 2016, þegar kerfið hefur verið fullfjármagnað í tvö ár, skuli fara fram mat á árangri, þ.e. hvað varðar örorkubyrði og nýgengi örorku. Óbreytt verði að fyrir árslok 2014 muni framlög aðila sem kveðið er á um í 5.–7. gr. frumvarpsins verða endurskoðuð en sú endurskoðun tekur aðeins til fjárhags sjóðanna sjálfra og hvernig framlögum til þeirra hefur verið varið, ekki örorkubyrðinni eða þeim árangri sem ég nefndi áðan.

Herra forseti. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem er að finna á þskj. 1465 og ég hef hér fjallað um.

Undir þetta álit skrifa auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lúðvík Geirsson, Kristján L. Möller, Björgvin G. Sigurðsson og Guðmundur Steingrímsson.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 3. umr.