140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[17:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um í 1. umr. er þetta mjög jákvætt mál og er afleiðingin af löngu starfi meðal annars í Bollanefnd sem ég átti sæti í, ég vildi undirstrika það fyrst.

En ég vil spyrja af hverju menn fóru þá leið að nota tvenns konar gjaldstofn við greiðslurnar. Af hverju var ekki notaður annaðhvort gjaldstofn iðgjalda í lífeyrissjóð eða tryggingagjald? Það er á þessu eilítill munur og ég vil fá svar við því.

Þegar talað er um að þetta eigi ekki að trufla framtíðarskuldbindingar lífeyrissjóðanna þá er það náttúrlega hugsað þannig að þetta spari lífeyrissjóðunum fé því að öryrkjum fækki og fleiri verði virkir og haldi þá áfram að greiða í lífeyrissjóðina, það ætti nú að koma fram.

Síðan er spurningin með það orðalag að þeir einstaklingar sem er þannig ástatt um að þeir hyggja ekki á endurkomu. Er þetta algjörlega sjálfvalið hjá einstaklingum hvort þeir hyggi á endurkomu á vinnumarkað eða ekki? Væri ekki meira atriði að athuga hvort þeir geti komist á vinnumarkað frekar en að það sé eitthvert val einstaklingsins um verða öryrki til æviloka en ekki hvað hann getur?

Svo er það spurningin: Er eitthvað í kortunum um að fleiri en einn sjóður verði, því að talað er um tvo? En ég veit að það er ákveðin ástæða fyrir því.

Svo er dálítið merkilegt að segja: „Til að koma í veg fyrir óþarfa sjóðsöfnun“ ætli menn að fresta gildistöku. Er eitthvað að uppbyggingunni, er þetta ekki nógu skilvirkt eða ekki nógu skipulagt eða hvað er það? Ég tel að mjög mikilvægt sé að þetta fari í gang þannig að við förum að sjá lægri tíðni nýgengis í örorku og eins að menn endurhæfist í meira mæli en hingað til.