140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[17:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ég er honum hjartanlega sammála í því að það er gott að þetta fari að komast vel af stað fyrir alvöru á grunni laga. Við væntum þess greinilega bæði að það muni hafa þann árangur að nýgengi örorku muni minnka.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um af hverju miðað er við mismunandi gjaldstofn þegar 0,13% eru reiknuð, þá get ég ekki svarað öðru til en því að útreikningurinn sem slíkur er sá sami. Ég hygg að skýringar sé að leita í lögum um lífeyrissjóðina fyrst og fremst, en fram hefur komið að þetta er nokkurn veginn sama greiðsla frá hverjum hinna þriggja aðila. Ég get ekki svarað þessu öðruvísi en svo, en ég mun sannarlega kynna mér það á milli umræðna.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um þá sem ekki hyggja á endurkomu, já, þá er það svo að það getur verið mat viðkomandi einstaklings að hann einfaldlega treysti sér ekki til þess að fara út á vinnumarkað að nýju.

Að lokum: Verða fleiri en einn sjóður? Já, vonandi, því að samkvæmt því ef tíu þúsund manns, launþegar eða sjálfstæðir atvinnurekendur geta verið að baki hvers sjóðs og við erum með um 170 þús. manns á vinnumarkaði þá gætu faktískt orðið 17 sjóðir. En kannski verða þeir nú eitthvað færri.