140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

atvinnutengd starfsendurhæfing og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

735. mál
[18:05]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Tilurð þessa frumvarps, að leggja til rammalöggjöf utan um starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem bjóða atvinnutengda starfsendurhæfingu, má rekja til kjarasamninga eins og fram kom hér áðan.

Ég ætla í upphafi, virðulegur forseti, að nefna að það er eiginlega svolítið skondið og sérstakt á Íslandi að menn skuli semja í frjálsum samningum einhvers staðar úti í bæ um það að skuldbinda Alþingi til þess annaðhvort að setja lög eða breyta lögum svo að hægt sé að uppfylla samningana sem gerðir eru. Ég held að þetta sé eitt af því sem við þurfum verulega að skoða og hvort rétt sé að gera það í þeim mæli sem gert er.

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er stefnt að uppbyggingu á atvinnutengdri starfsendurhæfingu til að draga úr ótímabæru brottfalli launafólks af vinnumarkaði og sömuleiðis til að draga megi úr örorkubyrði og nýgengi örorku. Þetta er þarft markmið svo að það sé sagt. Markmiðið er líka að tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu vegna heilsubrests í kjölfar veikinda eða slysa atvinnutengda starfsendurhæfingu og að skapa heildstætt kerfi endurhæfingar. Þetta eru markmið laganna.

Það vakti hins vegar undrun mína og örugglega fleiri að í umsögnum kom fram að fagfélögum og stofnunum, hverra aðalstarfsvettvangur er innan endurhæfingar þar sem fagþekking er mikil, hafði ekki verið boðið sæti í nefndinni sem bjó til þetta frumvarp né heldur að gera athugasemdir áður en frumvarpið var lagt fram. Þarna held ég að við hefðum getað gert betur og vonandi verður svo þegar til lengri tíma er litið og endurskoða þarf þessi lög, eins og fram hefur komið, og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Nokkrir umsagnaraðilar gerðu líka athugasemdir við að með frumvarpi þessu væri hugsanlega verið að koma á tvískiptu kerfi endurhæfingar, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi hér áðan. Annars vegar værum við með læknisfræðilega endurhæfingu og hins vegar atvinnutengda starfsendurhæfingu. Ég veit að hugmyndir eru uppi um að horfa frekar til starfsorku en örorku og horfa frekar til þess sem við köllum bætur í almannakerfinu þannig að tekið sé tillit til starfsorku einstaklingsins en ekki örorku. Það er af hinu góða. Ég hef hins vegar áhyggjur af þessu kerfi og þeim athugasemdum sem fram komu um að kerfið yrði hugsanlega tvískipt því að ég er á þeirri skoðun, virðulegur forseti, að við höfum hvorki fjárhagslega né félagslega efni á því að vera með tvískipt kerfi læknisfræðilegrar endurhæfingar, starfsendurhæfingar hvers konar og atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Menn þurfa að horfa á öll þessi hugtök og velta fyrir sér hvar skörun verður og hvernig við getum sem best komið fólki til starfa eftir veikindi eða slys og metið starfsorku þess í stað örorku.

Virðulegur forseti. Ljóst er að með þessu frumvarpi og þeim samningum sem gerðir voru að verið er að færa gífurlegt fjármagn úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóða. Ég óttast að hætta sé á því að fjármagn vegna læknisfræðilegrar endurhæfingar, eins og til Reykjalundar, Grensáss, Náttúrulækningastofnunar í Hveragerði og fleiri sjálfstæðra starfsendurhæfingarstöðva, verði skert og þá finnst mér verr af stað farið en heima setið. Það fer ekkert á milli mála að árangur stofnana eins og Grensáss og Reykjalundar er ótvíræður og þær ber að styrkja miklu frekar en að veikja. Þessi tvö kerfi, læknisfræðilega endurhæfingin og atvinnutengda endurhæfingin, verða að vinna saman ef meginmarkmið frumvarpsins um heildstætt kerfi endurhæfingar á að nást.

Virðulegur forseti. Það hefur líka komið fram að áhersla umsagnaraðila innan endurhæfingargeirans var að nauðsynlegt væri að setja skilyrði um fagmenntun þeirra sem vinna sem ráðgjafar hjá VIRK eða starfsendurhæfingarsjóðum almennt, þeir væru félagsráðgjafar, náms- og/eða starfsráðgjafar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfarar, þ.e. úr öllum þeim stéttum sem hafa fagmenntun sem gæti komið til góða. Ég tek undir, virðulegur forseti, að það er afar mikilvægt að við leggjum ríka áherslu á fagmenntun því að ljóst er að með þessu frumvarpi, eins og málum háttar nú verði það að lögum, er allri atvinnutengdri starfsendurhæfingu í upphafi stýrt af starfsendurhæfingarsjóði VIRK.

Ég verð líka að segja, frú forseti, vegna þess að það er mín skoðun að ég tel hættu á því að með slíkri miðstýringu verði ferlið bæði langt og þunglamalegt, einkum fyrir skjólstæðinga sem falla hugsanlega ekki undir starfsendurhæfingarsjóðinn um þá þjónustu en sækja þangað engu að síður.

Virðulegur forseti. Þetta eru þeir skjólstæðingar sem geta hugsanlega ekki tekið þátt í athöfnum daglegs lífs vegna veikinda og þurfa á annars konar aðstoð að halda, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á áðan í ræðu sinni, innan félagslegs kerfis sveitarfélaganna eða innan heilbrigðiskerfisins áður en þeir geta í raun og veru hafið atvinnutengda starfsendurhæfingu á vegum starfsendurhæfingarsjóðs. Þó að þessi hópur falli í það minnsta að hluta undir læknisfræðilega endurhæfingu er afar mikilvægt að ríkissjóður tryggi á fjárlögum fjármagn til endurhæfingar sem þessir aðilar þurfa á að halda. Það er samfélagslega nauðsynlegt. Falli þeir ekki undir þá þjónustu sem starfsendurhæfingarsjóður getur veitt er nauðsynlegt að ríkið tryggi fjármagn til þess að efla þá starfsendurhæfingu.

Það var líka sagt hér áðan að margir sem þannig er ástatt um og ljóst er að endurkoma þeirra á vinnumarkaði gæti verið ólíkleg í náinni framtíð eiga rétt á viðeigandi þjónustu og þarf að gæta þess að þeir týnist ekki í því miðstýrða kerfi, virðulegur forseti, sem ég tel að hér sé verið að setja á laggirnar.

Virðulegur forseti. Það er nauðsynlegt að tryggja góða samvinnu starfsendurhæfingarsjóða og þeirra stofnana og fagaðila sem sinna starfsendurhæfingu. Meginmarkmið allra er að koma einstaklingum alla jafna aftur út í samfélagið eftir slys og/eða veikindi og stuðla að því að þeir sem verða fyrir slysum eða veikjast geti orðið virkir þátttakendur í samfélaginu að nýju og þar með í starfi. Ég tel því að mörkin á milli læknisfræðilegrar endurhæfingar innan og utan stofnana og eiginlegrar atvinnutengdrar endurhæfingar séu ekki alltaf skýr og verði ekki alltaf skýr og því verði að tryggja að þeir sem falla á milli kerfa njóti þjónustunnar.

Það verður alltaf ákveðin skörun því að læknisfræðilegri endurhæfingu lokinni er oft en ekki alltaf ljóst hvort raunhæft sé að stefna að atvinnuþátttöku. Þess vegna legg ég áherslu á það sem lagt er til og þarfnast endurskoðunar í kringum 2016 að samstarf verði milli þeirra aðila sem veita einstaklingum þjónustu innan stofnunar sem utan til að tryggja stöðu þeirra sem eiga rétt á þjónustu atvinnutengdrar starfsendurhæfingar hjá VIRK, eins og málin standa í dag, og þeirra sem með einum eða öðrum hætti falla á milli skips og bryggju og þurfa á þjónustu að halda en eru einhvers staðar utan við kerfin.