140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

greiðsla ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota.

686. mál
[18:23]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Hér er nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, hækkun hámarksgreiðslna o.fl.

Nefndin fjallaði töluvert um málið og bárust umsagnir frá Barnaheillum og Lögmannafélaginu.

Hér eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota og er um mikið framfaramál að ræða og nauðsynlegt að uppfæra þetta reglubundið þar sem upphæðirnar eru ekki tengdar við neina vísitölu. Um er að ræða fasta upphæð í lögum og því nauðsynlegt að endurskoða lögin með reglulegu millibili. Lögin eiga einnig við um líkamstjón sem leiðir af aðstoð við lögreglu við handtöku, borgaralega handtöku, eða til að afstýra refsiverðri háttsemi. Samkvæmt lögunum eru greiddar bætur vegna líkamstjóns og vegna miska.

Í frumvarpinu felast nokkrar breytingar: Lagt er til að hvorki verði greiddar bætur fyrir varanlegan miska nema hann sé að lágmarki 5% né fyrir varanlega örorku nema hún sé að lágmarki 15%. Jafnframt eru lagðar til breytingar á bótafjárhæðum og það var það efni máls sem var kannski mest fjallað um. Annars vegar er lagt til að hámarksbætur fyrir líkamstjón, þar með talið fyrir varanlegar afleiðingar andlegrar og líkamlegrar heilsu tjónþola, verði hækkaðar úr 2,5 millj. kr. í 5 millj. kr. og hins vegar að hámarksbætur fyrir miska verði hækkaðar úr 600 þús. kr. í 3 millj. kr. Lagt er til að við lögin bætist ákvæði sem mælir fyrir um þak á greiðslu útfararkostnaðar að fjárhæð 1,5 millj. kr.

Einnig er lögð til sú breyting að ef ríkissjóður á endurkröfu á hendur tjónþola skuli hann draga þá fjárhæð frá bótafjárhæð en þó aðeins ef þau brot sem tjónþoli hefur framið eru ófyrnd samkvæmt ákvæðum hegningarlaga. Þetta á við þegar sá sem sækir um bætur hefur áður verið valdur að tjóni annars einstaklings og hefur myndað ógreidda kröfu.

Það er eitt sem við leggjum til að verði tekið út frá því að frumvarpið kom frá hæstv. innanríkisráðherra, það er í 4. gr. þar sem lagt er til að ráðherra setji leiðbeiningar um þóknun til lögmanns og bindi hana við ákveðna fjárhæð. Nefndin taldi og var einhuga um að varhugavert væri að ráðherra bindi þóknun til lögmanna við tiltekna upphæð og leggur til að greinin falli brott. Eins og kemur fram í frumvarpinu er bótanefnd almennt bundin ákvörðun dómstóla um þóknun til lögmanns. Ráðuneytið lagðist ekki gegn þessari breytingu eftir að við höfðum farið í gegnum umsagnarferil og umræður um það í nefndinni.

Frá gildistöku gildandi laga fyrir um 15 árum hafa litlar breytingar verið gerðar á fjárhæðum bóta á grundvelli laganna og með frumvarpinu er leitast við að bæta heldur meira tjón fremur en minna. Einnig er ætlunin með frumvarpinu að bæta stöðu þolenda kynferðisafbrota með því að hækka hámarksgreiðslu miskabóta. Þess vegna er um að ræða þetta mikla aukningu á fjárhæðum af því að það er langt um liðið frá því að lögin voru sett. Eins og ég sagði þarfnast upphæðirnar reglulegrar endurskoðunar þar sem um er að ræða fastar fjárhæðir en ekki einhvers konar vísitölutengingar. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að 4. gr. falli brott.

Undir þetta álit ritar öll nefndin. Auk mín eru það hv. þingmenn Skúli Helgason, Þráinn Bertelsson, Magnús Orri Schram, Þuríður Backman, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Birgitta Jónsdóttir.