140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi.

717. mál
[19:05]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að mjög ánægjulegt er að ná að ljúka þessu máli af því að það átti þann sérstaka uppruna frábrugðið mörgum öðrum málum að það var sem sagt flutt af allri nefndinni í afar góðu samstarfi við innanríkisráðuneytið og löggæsluna. Það kom upp sterkur vilji fyrr í vetur um að halda áfram hinu sérstaka átaki sem stofnað var til fyrir ári síðan innan löggæslunnar til að vinna með sérstöku teymi gegn skipulagðri glæpastarfsemi þar sem löggæslumenn gætu helgað sig því verkefni einu og engu öðru.

Við í nefndinni ákváðum að það væri mikið á sig leggjandi til að framlengja það verkefni með sérstakri fjárveitingu jafnframt því að fela innanríkisráðuneytinu að vinna sérstaka aðgerðaáætlun gegn þessu. Þá tillögu unnum við frá upphafi til enda í afar fínu samstarfi við ráðuneytið og þakka ég ráðherra og ráðuneytinu fyrir allt það samstarf. Ég sé að málið mun ná fram að ganga og er það mikið ánægjuefni og tek undir hvert orð sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði um það áðan.