140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[19:08]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta mál á þann hinn sama uppruna og tillagan sem við vorum að samþykkja rétt áðan að það er unnið og flutt af nefndinni sjálfri. Við settum niður undirhóp innan hennar til að vinna að frumvarpi til laga um heiðurslaun listamanna og fórum vel í gegnum það fyrst hvort við teldum að það ætti almennt að halda áfram að veita heiðurslaun listamanna af Alþingi en ekki að fela það einhverjum öðrum samtökum eða leggja það hreinlega niður.

Það var niðurstaða okkar sem í nefndinni sátum, mín, hv. þingmanna Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og Þuríðar Backman, að áfram ætti að veita heiðurslaun listamanna, þetta væri jákvæð viðbót við framlög og fjárfestingar í listum og menningu og að þeim launum væri mikill sómi en sérlög þyrftu að vera um það. Hér eru lagðar til nokkrar breytingar sem ég hef ekki tíma til að tíunda núna, en ég held að það sé mikið ánægjuefni að utan um þetta fyrirkomulag sé settur sérstakur rammi með faglegum bakgrunni í nefnd sem tilnefnir einstaklinga og listamenn sem til greina koma að launin hljóti.