140. löggjafarþing — 118. fundur,  11. júní 2012.

heiðurslaun listamanna.

719. mál
[19:13]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Eitt nýmæla í sérlögum þessum um heiðurslaun listamanna er það að listamaður geti, kjósi hann svo, afsalað sér laununum tímabundið en haldið heiðrinum og setunni á listanum, og það held ég að sé mjög jákvæð og heppileg breyting. Hitt um fjölda listamanna þá sýndist sitt hverjum um það. Sumir vildu fjölga þeim verulega, aðrir vildu hafa þá heldur færri. Meðalfjöldi listamanna tekinn yfir 10–15 ár er undir 25, þeir eru 27 eða 28 núna, og lagt er til með bráðabirgðaákvæði að þeir haldi að sjálfsögðu launum sínum áfram. Hvort þeir eru 25 eða 30 er ekki aðalatriðið, þetta er yfir meðalfjölda síðustu ára þannig að þetta er hámarkið. Það er ekki þar með sagt að þeir þurfi að vera 25, þeir geta þess vegna verið færri, og Alþingi er í lófa lagið að fjölga þeim síðar sé það viljinn hér. En talið var heppilegt til að ná samstöðu um málið hjá fulltrúum þessara fjögurra flokka sem á bak við málið standa að sætta sig við töluna 25 þó að sumir vildu hafa þá fleiri.