140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna frásagna í fjölmiðlum um helgina þess efnis að þingmenn úr stjórnarliðinu, ef ég má komast þannig að orði, í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki sýnt því áhuga að taka mál hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem varðar SpKef og Byr á dagskrá nefndarinnar. Það á ekki við rök að styðjast. Framsögumaður þessa máls í nefndinni er ekki úr stjórnarflokkunum, hann hefur ekki óskað eftir því að málið yrði tekið á dagskrá í vetur og ekki lagt upp hvernig það skyldi gera. Hins vegar barst erindi frá þrem þingmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir helgina þar sem farið er fram á að fundur verði í nefndinni þó að reglulegum fundum nefnda sé lokið. Það hefur auðvitað verið orðið við því og í fyrramálið verður fundur um þetta mál og þá koma fulltrúar úr fjármálaráðuneyti og frá Fjármálaeftirliti á fund nefndarinnar.

Okkur greinir á um margt í þessum sal og það er eðlilegt en ég tel að við eigum að hafa það sem rétt reynist í efnum eins og þessum. Þess vegna vil ég að það sé tekið fram að þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa ekki — og ég endurtek, hafa ekki á neinn hátt reynt að seinka því máli sem um ræðir.