140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í fyrradag ályktaði aðalfundur Dýralæknafélags Íslands mjög harkalega gegn þeim breytingum sem koma fram í frumvarpi til nýrra laga um dýravernd og dýravelferð og voru kynntar af stjórnarflokkunum fyrr í vor. Dýralæknafélagið staðhæfir að dregið sé úr dýravernd í frumvarpinu.

Við vitum öll að almennt er hugsað vel um dýr á Íslandi og aðbúnaður þeirra hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum og áratugum. Það er hins vegar ástæða til að staldra við og taka afdráttarlausar ályktanir Dýralæknafélagsins vel til skoðunar.

Í tillögum nefndarinnar sem lagðar voru fyrir ráðuneytið að nýju frumvarpi var lagt til að bannað yrði að drekkja dýrum eða aflífa með útblæstri véla. Þessu heldur Dýralæknafélagið fram að hafi verið breytt á þann veg að slíkt verði heimilt. Þá var í tillögum nefndarinnar einnig ákvæði um að grasbítum skyldi tryggð sumarbeit en því var breytt á þann veg að útivist á grónu landi yrði nægjanlegt. Síðast en ekki síst var gerð breyting sem mundi heimila geldingar grísa án deyfingar. Dýralæknafélag Íslands leggst eindregið gegn þessum breytingum og vekur athygli á því að tekið hefur verið út áhrifaríkt þvingunarúrræði sem nefndin lagði til en það er heimild Matvælastofnunar til að skerða eða fella niður ríkisstyrki hjá þeim sem brjóta gegn dýrum.

Það er ástæða til að taka mjög afdráttarlaust undir þessa ályktun frá Dýralæknafélagi Íslands og hvetja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að taka þetta til skoðunar þegar málið verður endurskoðað í sumar en ljóst er að það fer ekki í gegnum þingið núna á þessu vori. Þá komi frumvarpið aftur hér í haust og taki mið af þessum ályktunum og markmiðum laganna en í þeim segir að þeim sé ætlað að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Til að ofangreindar breytingar nái fram að ganga þarf að taka tillit ályktunar frá Dýralæknafélagi Íslands og endurskoða frumvarpið í því ljósi og flytja það aftur svo breytt í haust.