140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir hvert orð sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir sagði áðan en ég ætla að ræða um upplýsingagjöf ráðherra. Samkvæmt 54. gr. stjórnarskrárinnar er heimilt, með leyfi frú forseta, með leyfi Alþingis að óska upplýsinga ráðherra.

Þann 1. nóvember síðastliðinn spurði ég þáverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon skriflegra spurninga sem ég fékk ekki svör við. Þegar stjórnarskiptin urðu endurnýjaði ég spurninguna, 16. janúar, og fékk svar í mars frá núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Spurning mín hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Hvaða innlánsstofnanir hafa fengið eða er fyrirhugað að fái ríkisstuðning frá september 2008?“

Fjórði liður spurningarinnar hljóðaði þannig, með leyfi forseta:

„Hver var fjárhæð innlána hjá hverri stofnun skv. 1. lið í lok hvers mánaðar frá september 2008 til september 2011 …?

Ég fékk svar sem er þannig, frú forseti, og það var í tilefni af umræðum í gær:

„Ráðherra óskaði eftir upplýsingum frá viðkomandi innlánsstofnun vegna 4. töluliðar en þar sem umræddar upplýsingar lúta ekki að opinberu málefni er stofnuninni ekki skylt að veita þær.“

Þetta eru stofnanir sem óskað hafa eftir ríkisstuðningi, sem sagt óska eftir skattfé, og innlánin eru andlag ríkisábyrgðarinnar því að stjórnvöld hafa lýst því yfir að ábyrgð sé á innlánum. Aukning á innlánum þýðing aukning á ríkisábyrgð. Ég vil fá að vita hvað innlán jukust mikið í SpKef sem stofnaður var af hæstv. fjármálaráðherra þáverandi Steingrími J. Sigfússyni og starfaði í tíu mánuði. Ég vil fá að vita hvort innlánin jukust á þessum tíma og hvort ríkisábyrgðin hafi þar að leiðandi aukist líka, en komið hefur í ljós að hún er hvorki meira né minna en 19 milljarðar og 25 milljarðar með vöxtum. (Forseti hringir.) Þetta skiptir verulegu máli, frú forseti.