140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur og fordæmingu hæstv. utanríkisráðherra vegna ástandsins í Sýrlandi. Þaðan berast á hverjum degi slíkar fréttir af morðum og pyndingum að almenningur er sleginn miklum óhug.

Í skjóli stjórnarhersins og aðgerðaleysis stjórnvalda eru framin þar voðaverk á degi hverjum. Börn og heilu fjölskyldurnar og þorpin eru þurrkuð út eins og hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir sagði áðan. Börn eru sögð fest á skriðdreka til að fæla uppreisnarmenn frá því að ráðast á þá og allt útlit er fyrir að blóðbaðið muni aukast enn frekar á næstu vikum vegna örvæntingar stjórnvalda og aukinnar vígvæðingar uppreisnarmanna. Það er siðferðisleg skylda okkar Íslendinga að láta rödd okkar heyrast í þessum efnum. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verður að beita sér í málinu og Kínverjar og Rússar, sem ekki hafa stutt íhlutun, leiða með framkomu sinni í ljós að öryggisráðið er gagnslaust verkfæri. Alþjóðasamfélagið verður því að leita annarra leiða og þá án atbeina Rússa og Kínverja til að grípa til aðgerða þegar gengið er fram af slíku miskunnarleysi og grimmd sem nú viðgengst í Sýrlandi.

Talið er allt að 15 þúsund manns hafi látist frá því að arabíska vorið hófst fyrir rúmu ári síðan í Sýrlandi. Íslendingar geta á vettvangi Atlantshafsbandalagsins stutt að samningsumleitanir og friðarsamningar séu studdir með nærveru alþjóðaherliðs. Blóðbaðið verður að stöðva.