140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Ragnheiði E. Árnadóttur og gera hennar orð að mínum varðandi hið hræðilega ástand í Sýrlandi, ég tek undir hvert orð í máli hennar áðan.

Ég er hins vegar hingað komin til að vekja athygli á mjög fjölbreyttu og stórkostlegu íþróttastarfi í landinu. Við fylgjumst nú með úr fjarska frábærri Evrópukeppni karla í fótbolta og vonandi komast strákarnir einhvern tímann þangað. Unglingalandsliðin gefa tilefni til bjartsýni. Við sjáum að stelpurnar okkar hafa náð stórkostlegum árangri og síðan verða Ólympíuleikarnir haldnir í London nú í sumar og ég veit að Ríkisútvarpið dekkar vel útsendingar þaðan enda verður þar frábært íþróttafólk sem náð hefur þeim merkilega áfanga og árangri að komast á sjálfa Ólympíuleikana. Við erum með stóran hóp og er stærsti hópurinn þar náttúrlega handboltalandslið karla.

Ég vil líka vekja sérstaka athygli á því sem verið hefur að gerast í málum og íþróttamálum hreyfihamlaðra. Við höfum náð þar stórkostlegum árangri og er það algert einsdæmi, eins og komið hefur fram í fréttum, að við munum senda sex hreyfihamlaða íþróttamenn á EM núna í júní. Ég hef heyrt að við munum senda að minnsta kosti fjóra og jafnvel átta íþróttamenn á Ólympíuleika fatlaðra, þ.e. Paralympics í London síðar í sumar. Hins vegar hef ég heyrt af því að Ríkisútvarpið muni hugsanlega ekki dekka útsendingu frá keppni þeirra fjögurra eða sex íþróttamanna, jafnvel átta, sem fara á Paralympics. Ég vil því hvetja Ríkisútvarpið, sem stendur sig með sóma þegar kemur að útsendingum á hinum hefðbundnu Ólympíuleikum, til að fylgja eftir þessum stórkostlegu einstaklingum og þeim er að fjölga, við verðum að átta okkur á því. Það er ekki langt að fara, aðeins til Englands. (Forseti hringir.) Við Íslendingar stöndum okkur vel á því sviði og við erum að fjölga afreksíþróttafólki í hópi hreyfihamlaðra. Við verðum að styðja það fólk líka.