140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Það er oft þannig í þingsal að umræðan er frekar á neikvæðum nótum. Við þingmenn virðumst oft vera uppteknir af veikleikunum frekar en styrkleikunum og látum oft líta þannig út í ræðum okkar að allt sé í kaldakoli á okkar fallega landi. En það er ekki svo, við sjáum það víða í atvinnulífinu og í stöðu heimilanna að hagur fer batnandi. Við sjáum til dæmis að Hafrannsóknastofnun leggur til aukinn þorskkvóta. Hagvöxtur hér á landi er meiri en á hinum Norðurlöndunum, á fyrsta ársfjórðungi var hagvöxtur á Íslandi 4,2%. Við sjáum að laun hækka um 2% á milli ársfjórðunga og hafa hækkað um 10,3% á síðustu 12 mánuðum hér á landi. Samkvæmt gögnum Seðlabankans fer staða heimilanna batnandi. Heildarskuldir þeirra lækkuðu um tæplega 8% á síðasta ári á sama tíma og kaupmáttur launa jókst um 3,75% og íbúðaverð hækkaði um 10% á síðasta ári.

Við sjáum einnig að söluaukning í nýjum fólksbílum er 76% ef miðað er við fyrstu fimm mánuði þessa árs og síðustu fimm mánuði síðasta árs. Við sjáum að brottfarir Íslendinga um Leifsstöð hafa aukist um 5% á milli ára og við sjáum til dæmis að nú hefur verið ákveðið að tvöfalda getu gagnaversins í Hafnarfirði. Fleira mætti telja. Ef farið er inn á heimasíðu Arion banka sjáum við gögn frá fyrirtækjum sem þar hefur verið safnað saman og víðast hvar er að finna veltuaukningu, söluaukningu, fjölgun starfsfólks o.s.frv.

Ég held að við þingmenn ættum að sameinast um að fara að tala á jákvæðari nótum í samræðum okkar. Við þurfum að styðja við atvinnulífið. Það er í viðspyrnu og við eigum þess vegna í ræðum okkar hér í þingsal ekki að draga máttinn úr þeirri viðspyrnu sem á sér stað í atvinnulífinu hér á landi. Spilum sóknarleik.