140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Magnúsi Orra Schram að við mættum oft vera jákvæðari til dæmis í garð þess sem er að gerast í atvinnulífinu og við ættum í þessum sal að reyna að forðast að standa að lagasetningu og breytingum á lögum sem beinast beinlínis gegn atvinnulífinu eða einstökum atvinnugreinum. Ég þarf væntanlega ekki að skýra út fyrir þingmönnum til hvers ég er að vísa.

Ég kom hingað upp til að nefna örfáum orðum það mál sem til umræðu var í upphafi umræðunnar sem varðar SpKef og aðkomu fjármálaráðuneytis og stjórnvalda að því máli eftir hrun. Það er rétt sem hv. þm. Eygló Harðardóttir nefndi að væntanleg er rannsóknarskýrsla sérstakrar nefndar sem þingið skipaði á síðasta ári út af því máli. Við vitum auðvitað ekki nákvæmlega hvenær hún skilar af sér en ég vonast til þess eftir því sem ég hef heyrt að það verði með haustinu. En þrátt fyrir það orðalag sem hv. þingmaður vísar til geri ég ráð fyrir að í þeirri skýrslu sé sjónum fyrst og fremst beint að því sem olli því að þessi fjármálastofnun og sumar hverjar fjármálastofnanir lentu í fanginu á ríkinu. Það er rétt að túlka má orðalagið þannig að það geti náð til eftirleiksins alls, ég ætla ekki að þræta um það við hv. þingmann en ég dreg samt á engan hátt dul á að mér finnst að það gefi okkur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tilefni til að spyrja spurninga varðandi tímabilið eftir að þessi fjármálastofnun lenti í fanginu á ríkinu, um hvaða ákvarðanir voru teknar þar, hvort þær voru réttar og hvort þær beri að endurskoða.

Ég staðfesti það (Forseti hringir.) sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sagði áðan að ekki er hægt að segja að stjórnarmeirihlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi hindrað að þetta mál væri tekið fyrir á dagskrá þeirrar nefndar. (Forseti hringir.) Til að enda þetta á jákvæðum nótum vil ég þakka hv. þingmanni fyrir skjót viðbrögð þegar við sendum erindi um helgina um að taka málið fyrir þar í nefnd.