140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:26]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að yfirferðin í gegnum málið á mörgum fundum í fjárlaganefnd í aðdraganda þessarar umræðu hafi sýnt fram á að spár eru mjög varfærnislegar.

Það er alls ekki rétt að verið sé að miða við bjartsýnustu spár, það er verið að miða við mjög varfærnar og hófstilltar spár um umferðaraukningu og annað og í raun er lögð til hliðar sú þróun sem blasir við að verður í kringum orkufrekan iðnað og framkvæmdir þar nyrðra þegar þær fara á fullt. Þvert á móti bendir flest til þess að umferðin verði miklu meiri og veggjöldin geri meira en að standa undir framkvæmdinni. Það hefur sagan kennt okkur, t.d. af Hvalfjarðargöngunum, og það er mjög líklegt að þegar umsvif fara á fleygiferð á þessu svæði verði raunin þar sú sama.

Ég stíg því mjög varlega til jarðar. Þetta er sérstök samgönguframkvæmd sem mun frestast í mörg ár ef þessi leið verður ekki farin. Þess vegna er ástæða til að (Forseti hringir.) taka hana fram yfir og til hliðar. Hún er líka fjármögnuð með veggjöldum en ekki af hefðbundnu ríkisfé eins og hinar framkvæmdirnar.