140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður erum vissulega sammála um að ríkissjóður er allt of skuldsettur. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort nú sé rétti tíminn til að takast á hendur fjárhagslega skuldbindingu af þessu tagi. Ég leyfi mér að hafa efasemdir um það og þar greinir okkur hv. þingmann kannski á. Hv. þingmaður horfir á þetta verkefni mjög bjartsýnum augum, gerir ráð fyrir því að þær áætlanir sem byggt er á af hálfu fyrirtækisins sem að þessu stendur og fjármálaráðuneytis gangi upp. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um það og fjölmargir deila þeim áhyggjum með mér.

Ég sagði í ræðu minni að veggjöld munu án efa koma til móts við kostnaðinn. Án efa munu veggjöld draga úr kostnaði ríkissjóðs. Ég held hins vegar, því miður, að þær áætlanir sem hér er byggt á, að þetta verði eingöngu (Forseti hringir.) fjármagnað af veggjöldum, séu óraunhæfar.