140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara út frá stöðunni hér í þinginu verð ég að segja að ég kysi að kominn væri botn í þetta mál áður en við færum í síðari umræðu um samgönguáætlun. Síðari umræða samgönguáætlunar sem er dagskrá á eftir eins og dagskráin er sett upp í dag er lokaumræða um samgönguáætlun.

Hér erum við hins vegar með frumvarp um ríkisábyrgð á Vaðlaheiðargöngum við 2. umr. Það á eftir að ganga til nefndar og síðan að koma til 3. umr. Ég verð að játa að betur færi á því að samgönguáætlun frestaðist meðan fenginn væri endanlegur botn í þetta mál þannig að við vissum að minnsta kosti hvort meiri hluti þingsins væri sammála okkur í meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um að málið ætti að fá umfjöllun á þeim vettvangi.

Ef ákvörðun liggur fyrir um það hjá meiri hluta þingsins að umhverfis- og samgöngunefnd eigi ekkert að koma nálægt þessu, eigi ekkert að grauta í þessu og ekkert að ræða þetta í samhengi við samgönguáætlun er það bara ákvörðun og hún stendur. Ég get verið ósáttur við hana en það er þá ákvörðun sem stendur. Mér finnst óeðlilegt að ljúka umfjöllun um samgönguáætlunina áður en við komumst til botns í þessu máli.