140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt lykilatriði í þessu að við verðum að reyna að sjá stóru myndina um framkvæmdir í samgöngumálum um land allt. Þrátt fyrir, að mínu mati, vanhugsaða ákvörðun sveitarstjórna hér á höfuðborgarsvæðinu að fresta framkvæmd Sundabrautar og ákvörðun um hana er engu að síður fræðilegur möguleiki að Sundabraut yrði kippt út úr samgönguáætlun ef menn sæju arðbærnina, veggjöldin o.fl. sem yrði tengt Sundabraut og hún þá afgreidd í gegnum fjárlaganefnd.

Það er hægt að taka hvert málið á fætur öðru í heilbrigðismálum og menntamálum og afgreiða. Fagnefndirnar sitja þá eftir með enga ákvörðun og eftir standa óvönduð vinnubrögð hvað það varðar að sjá heildarmyndina í hverju máli fyrir sig í öllum þeim málaflokkum sem við stöndum frammi fyrir.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég tel farsælast að við fáum einhvern botn í þetta mál og ákveðum síðan hvernig samgönguáætlun lítur út til næstu ára.