140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:42]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta er fróðleg umræða sem hér skapast í upphafi síðari áfanga þessarar 2. umr. um málið. Eins og hv. síðasti ræðumaður sagði er þar að auki ein eftir en ég hygg að meginlínur ráðist í lok þessarar umræðu, hvernig sem það verður. Umræðan er fróðleg vegna þess að einn af hinum erfiðu punktum í þessu máli er samhengi þess við samgönguáætlun og afskipti umhverfis- og samgöngunefndar, sérnefndar um samgöngumál, af málinu í þessum umgangi. Þau afskipti hafa aldrei verið nein og væri saga að segja frá því öllu saman.

Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni að mér þykir miklu eðlilegra að samgönguframkvæmd af þessu tagi fari inn í samgönguáætlun. Þá mætum við vanda sem ekki hefur verið leystur af forsvarsmönnum málsins og ég spyr: Með hvaða hætti ætti það að vera og hvaða fordæmi skapar þessi ráðagerð? Ég hyggst fjalla um það síðar í þessari umræðu. Áður en ég geri það langar mig að víkja aðeins að frumvarpinu sjálfu eins og það er. Þetta er ekki frumvarp um samgönguframkvæmd heldur um ríkisábyrgð. Frumvarpið felur í sér að tilteknu félagi verði lánuð ákveðin upphæð og að um það gildi lögin um ríkisábyrgðir en þó þannig að undanskilin eru frá þeim lögum ákaflega mikilvæg ákvæði. [Hlátur í þingsal.] — Ég þakka góðar undirtektir í salnum við þessa ræðu, forseti, það er óvenjulegt að fá undirtektir af þessu tagi. Ég ætla að fara yfir það hvaða ákvæði þetta eru. Það er einfalt því að þetta eru einkum tvö ákvæði, annars vegar 3. töluliður 1. mgr. 3. gr. þessara laga, sem eru nr. 121/1997. Það sem er undanþegið er að ábyrgðarþegi leggi fram að minnsta kosti 20% af heildarfjárþörf verkefnisins. Hins vegar er í 2. mgr. 3. gr. laganna sagt að ábyrgð ríkissjóðs skuli ekki nema hærra hlutfalli en 75% af lánsfjárþörf verkefnis sem veitt er ríkisábyrgð. Þessar undantekningar eru auðvitað tvær af helstu forsendum þess að ríkisábyrgð sé veitt og þess vegna verður að fara mjög vandlega yfir það hvernig stendur á því að ríkisábyrgð er veitt þó að þessi skilyrði séu ekki fyrir hendi.

Lögin um ríkisábyrgð eru frá 1997, eins og áður segir, og þau urðu þannig til að fjármálaráðherra í ríkisstjórn þeirri sem hér sat árið 1993, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, skipaði nefnd valinkunnra sérfræðinga til að fara yfir ríkisábyrgðarmálið vegna þess sem sjá má í þeirri greinargerð sem nefndin skilaði af sér og einnig í því sem upp úr henni er tekið í athugasemdir við frumvarpið sem varð að þeim lögum sem um ræðir. Ríkisábyrgðir höfðu verið veittar í áratugi með ýmsum hætti sem ekki samrýmdist stjórnfestu — það orð var ekki til þá — og nútímalegum vinnubrögðum við fjármálastjórn og þeirri ábyrgð sem stjórnmálamönnum í ríkisstjórn og á Alþingi er skylt að sýna gagnvart fjármunum borgaranna.

Í athugasemdum við 3. gr. segir meðal annars, með leyfi forseta, að það sé „hlutverk þeirra lánastofnana sem starfa hér á landi að veita lán. Ríkið hefur verið að draga úr umsvifum sínum á þessu sviði … Í greininni er kveðið á um það að ríkisábyrgð skuli einungis veitt ef lánsfjárþörfina er ekki hægt að uppfylla á almennum lánamarkaði og sýnt þykir að þrátt fyrir það sé starfsemin hagkvæm …“

Þetta á að gilda um Vaðlaheiðargöngin, þ.e. hér er því haldið fram að forsenda ríkisábyrgðarinnar sé sú að lánsfjárþörfina sé ekki hægt að uppfylla á lánamarkaði. Þetta eru þó í raun engin rök í málflutningi þeirra sem styðja frumvarpið og flytja það.

Síðan kemur um þær undantekningar sem hér um ræðir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að ábyrgð ríkisins nemi að hámarki 75% af lánsfjárþörf viðkomandi. Eðlilegt þykir að lánveitandi taki nokkra áhættu með ríkissjóði á lánveitingum“ — þ.e. upp að þessum 25% — „enda verður það þá til þess að hann meti vandlega þá áhættu sem er samfara lánsviðskiptunum. Að auki verði krafa um að 20% af þeirri fjárfestingu sem ábyrgðar nýtur verði fjármögnuð með eigin fé. Þessi skilyrði samanlögð jafngilda því að ábyrgð ríkisins getur mest orðið 60% af heildarfjárfestingu verkefnisins.“

Það er mikilvægt, forseti, að líta á forsendurnar fyrir því að menn settu þetta í lög árið 1997 og þingheimur varð sammála um þær framfarir sem hér urðu á fjármálastjórn hjá ríkinu. Það er fróðlegt að sjá að þingmönnum þótti þá eðlilegt að lánveitandi tæki nokkra áhættu með ríkissjóði á lánveitingunum. Þetta á nú að fella burt og þarf til þess veigameiri rök en sett eru fram í athugasemdum með frumvarpinu og í þeim ræðum sem hér hafa verið haldnar.

Ég er enginn sérfræðingur í sögu ríkisábyrgða, hvorki fyrir né eftir 1997, þó að ég þekki meginaðferðirnar sem hafðar hafa verið við þetta. En það er rétt að segja frá því að ég leitaði mér heimilda um það hvenær áður hefði verið veitt ríkisábyrgð af þessu tagi, hvenær áður hefði verið lagt til og samþykkt á þinginu að fella burt þau skilyrði sem nefndin frá 1993–1997 og síðan þingheimur árið 1997 setti fram fyrir ríkisábyrgð. Um það fann ég eitt tilvik og ég hygg að þau séu ekki fleiri. Það tilvik er frá árinu 2002 þegar veitt var ríkisábyrgð á láni til Íslenskrar erfðagreiningar, öðru nafni deCode, eftir mikil átök í þinginu og um allt samfélagið. Um það mál voru, eins og ég segi, mikil átök á þinginu og væri hægt að vitna í langar ræður um það. Þau urðu vegna þess að þó að fyrirtækið væri hið ágætasta, eins og út af fyrir sig stendur á um þær framkvæmdir sem hér er um að ræða, þótti áhættan mikil og algjörlega óeðlilegt að veita ríkisábyrgð með þessum undantekningum þegar þetta bar að.

Þetta er þá í annað sinn síðan deCode-lögin voru samþykkt. Rétt er líka að taka fram að aldrei reyndi á þessi lög, aldrei varð af því að fjármálaráðherra nýtti þá heimild sem hann fékk í þessum lögum. Ég sé ekki í huga fjármálaráðherra, hvorki á þessum tímum né á síðari tímum, en ég hygg að þetta hafi meðal annars verið vegna þess að það hefði skapað mjög slæmt fordæmi að gera það og það fordæmi erum við að búa til núna.

Ég held að bara þetta atriði, að skoða lögin um ríkisábyrgðir og líta á það eina fordæmi sem gert er ráð fyrir í þessari tillögu um undantekningu frá lögum, sýni okkur að þetta mál er þannig vaxið að það þarf að ræða mun betur og að fyrir því þurfi að liggja sterkari rök, ekki aðeins fyrir samtíma okkar þó að erfitt sé að ráðstafa fé með þessum hætti heldur ekki síður fyrir framtíðina, því að hér er verið að opna fyrir afgreiðslu annarra mála sem kunna að vera enn verri en þetta. (Forseti hringir.) Þess vegna er rétt að fara að öllu með mikilli gát.