140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[11:52]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er rætt við 2. umr. frumvarp til laga um heimild til handa ráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Ég ætla fyrst og fremst að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég er hlynntur öllum vegaframkvæmdum sem mögulegt er að ráðast í, sérstaklega úti á landi þar sem samgöngur eru einn brýnasti þátturinn í að tengja saman byggðir, treysta atvinnu, treysta þjónustu og treysta samfélögin. Styrking og efling samgangna hvar sem er er mikilvægur liður í því.

Hins vegar hefur sú regla verið hér að unnar hafa verið samgönguáætlanir, bæði til skamms tíma, til næstu fjögurra ára, og svo langtímaáætlanir, til næstu tíu eða tólf ára. Þar hefur verið forgangsraðað þeim samgönguverkefnum sem á Alþingi hefur á hverjum tíma orðið sátt um röðun á. Sjálfsagt er enginn 100% ánægður með þá röðun sem Alþingi afgreiðir frá sér á hverjum tíma í þessum samgönguáætlunum því að hver og einn, hvar sem hann býr á landinu, vill fá sem bestar samgöngur næst sér og sem tryggastar.

Engu að síður er þetta hinn þingræðislegi ferill sem málið hefur verið í á undanförnum árum og er enn, að þessu verði raðað í svokallaðri samgönguáætlun bæði til skemmri og lengri tíma. Við þetta hafa allir orðið að búa og reyndar hafa ýmsir orðið að búa við það síðan að framkvæmdir væru skornar niður þó að þær væru komnar inn á áætlun.

Ég tel mjög varhugavert og hættulegt að fara inn á þá braut sem hér er verið að gera, að taka eina framkvæmd út fyrir samgönguáætlun og keyra hana nánast bakdyramegin í gegnum allt kerfið, bæði hið þingræðislega kerfi af hálfu Alþingis, um vinnu samgöngu- og vegáætlunar, og einnig hvað varðar fjármögnun á þessu verkefni.

Hér er lagt til að tekið sé sérstakt lán sem ríkið ábyrgist til að fara í þessar framkvæmdir og síðan er þess vænst að það greiðist að einhverju leyti upp á einhverjum tilteknum árafjölda fram í tímann. Hins vegar er ríkissjóður klárlega ábyrgur hvernig sem málin fara.

Ég hef tvær meginathugasemdir: Ég tel að samgöngur eigi að vera hluti af heildarneti landsins. Öll grunnsamgöngumannvirki eiga að vera í eigu hins opinbera og við eigum að bera ábyrgð á þeim saman en ekki fara út í einkavæðingu á grunnsamgönguneti landsmanna. (Gripið fram í.) Ég vil líka að verkefni af þessu tagi fari í gegnum hinn hefðbundna feril, í gegnum vegáætlun og samgönguáætlun.

Við höfum til dæmis á undanförnum árum barist fyrir auknum og bættum samgöngum á Vestfjörðum sem er sá landshluti sem hefur hvað helst mátt búa við mjög lélegt samgöngunet. Sá landshluti hefur mátt búa við eina verstu þjónustu hvað varðar meginleiðir, hvort sem eru á landi, í lofti eða á sjó, samgönguleiðir og flutningsleiðir. Og þó að á einhverjum ákveðnum tíma hafi tekist að koma vegum þar inn á samgönguáætlun hafa þeir iðulega mætt niðurskurði eins og til dæmis var á þensluárunum á bilinu 2007–2009. Þá greip þáverandi ríkisstjórn til þess að skera niður og fresta framkvæmdum á Vestfjörðum til að slá á þenslu sem að langmestu leyti var á suðvesturhorni landsins. Vestfirðir hafa því heldur betur þurft að færa sínar fórnir þegar vikið hefur verið frá gerðri samgönguáætlun. Og enn á það að vera svo.

Ég hefði viljað sjá alla þá áherslu sem með nokkru móti væri hægt að leggja á auknar og bættar samgöngur bundnar Vestfjörðum, bæði um Vestfjarðaveginn sjálfan og einnig Dýrafjarðargöng, veginn um Dynjandisheiði, veginn norður Strandir, norður í Árneshrepp. Þetta eru þær leiðir sem ættu að hafa algjöran forgang núna.

Það þýðir ekkert að segja að framkvæmd eins og sú sem hér er lögð til, Vaðlaheiðargöng, hafi ekki áhrif á aðrar framkvæmdir. Það er fráleitur málflutningur. Ef Alþingi er samþykkt því að Vaðlaheiðargöng skuli hafa þennan forgang getur Alþingi sett framkvæmdina inn í hina hefðbundnu samgönguáætlun og það væri þá miklu heiðarlegra en að koma með hana svona inn.

Vaðlaheiðargöng eru í sjálfu sér góð framkvæmd fyrir svæðið sem um ræðir en þarna er líka góður heilsársvegur með bundnu slitlagi og ekki hæsti fjallvegur á landinu. Margir íbúar á Vestfjörðum yrðu til dæmis mjög ánægðir með að hafa vegi eins og þann sem liggur um Víkurskarð þó að göngin biðu ef þeir fengju hliðstæðan veg.

Ég lýsi því yfir að ég tel afar óeðlileg vinnubrögð að fara bakdyramegin með þessi göng undir Vaðlaheiði eins og hér er gerð tillaga um. Ég hefði heldur viljað sjá áhersluna á Dýrafjarðargöng. Ef við horfum á jarðgöng ættu Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng að koma verulega langt á undan Vaðlaheiðargöngum.

Frú forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Ég minni á það í þessari umræðu að við, nokkrir þingmenn, höfum flutt þingsályktunartillögu um lagningu heilsársvegar í Árneshreppi. Flutningsmenn eru úr öllum þeim flokkum sem eru á Alþingi, auk mín hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Einar Kristinn Guðfinnsson, Lilja Mósesdóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Þór Saari. Við höfum flutt tillögu um að lagður verði heilsársvegur norður í Árneshrepp og hann settur á sýnilegan forgangslista, að framkvæmdir þar geti átt sér stað á næstu fjögurra ára áætlun samgöngumála þannig að það gerðist að meginhluta til á þeim tíma. (Gripið fram í.) Þarna eru engar samgöngur, þarna eru ekki vetrarsamgöngur. Þarna er aðeins illfær malarvegur sem ber ekki nauðsynlega þungaflutninga. Þarna er byggð sem búið hefur allar götur við samgönguleysi. Ég hefði viljað sjá að Alþingi sameinaðist um að gera nú átak í að leggja heilsársveg norður í Árneshrepp þannig að hann gæti orðið að veruleika á næstu fjórum árum og kæmi líka inn á samgönguáætlun.

Ég hef flutt tillögur um það ásamt fleirum að við afgreiðslu vegáætlunar núna verði því fjármagni sem verið er að bæta við í samgöngumál varið þannig að hægt verði að klára á næstu fjórum árum heilsársveg að meginhluta norður í Árneshrepp. Það var rismeira og meira í takt við það sem við hér vinnum. Ég minni á stefnu okkar flokks í þeim efnum, við höfum barist fyrir bættum samgöngum á Vestfjörðum, að því er ég best veit. Þó að ég ætli ekki að fara að bera þessi mál saman sem slík, þau eru ólík, er það staðreynd að þegar ein framkvæmd tekur til sín fjármagn verður að ýta annarri til.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en ítreka að mér finnst ótrúleg framganga að leggja fram þetta frumvarp. Ég hef heyrt í ræðum ýmissa þingmanna að dregið er í efa að þetta standist lög hvað varðar þær ríkisábyrgðir sem lagt er til að veittar verði fyrir framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng. Þarna er verið að fara bakdyramegin í samgönguáætlun í staðinn fyrir að málið fái þann forgang og þá stöðu í heildarsamgönguneti landsmanna sem Alþingi er sátt við. Þarna er líka verið að fara í blandaða framkvæmd, einkaframkvæmd með ríkisábyrgð, sem ég held að sé það versta sem við gerum í grunnsamgönguneti þjóðarinnar. Minn flokkur hefur ávallt lagst gegn þeirri leið að einkavæða grunnnet samgangna með þessum hætti og ég leggst því alfarið gegn frumvarpinu, frú forseti, ekki framkvæmdinni sem slíkri, hún er mikilvæg, heldur því hvernig að henni er staðið og hvernig um hana er búið. Ef við viljum ráðast í Vaðlaheiðargöng eiga þau að fara í gegnum samgönguáætlun og vera á fjárveitingum samgönguáætlunar en við eigum ekki að fara þá bakdyraleið sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Ég læt þetta nægja að sinni, frú forseti, en ítreka að samgöngur á Vestfjörðum og Dýrafjarðargöng ættu að hafa forgang í stað gælumála af þessum toga sem verið er að smeygja bakdyramegin inn í samgönguáætlun þjóðarinnar til næstu ára.