140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:11]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eitt af því sem hefur mjög verið dregið fram í umræðunni, bæði í samfélaginu og hér á þingi, eftir hrunið svokallaða og aðdraganda þess er einmitt það að við á Alþingi eigum að minnsta kosti að ganga á undan með góðu fordæmi en líka tryggja með gjörðum okkar að við stígum ekki einhver óundirbúin eða röng skref hvað varðar fjárhagsábyrgðir ríkisins, hvort sem er í framkvæmdum eða öðrum skuldbindingum sem ríkið tekur á ómálefnalegan hátt eins og er að mínu mati verið að gera hér. (Gripið fram í: Ódýrast fyrir ríkissjóð.)

Ég tek líka undir álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar hvað þetta varðar. Mig minnir að hæstv. innanríkisráðherra, ráðherra samgöngumála, hafi líka varað við því að hér væri ef til vill ekki staðið fyllilega löglega að málum, hvort framkvæmdin stæðist skoðun. Hvað gerist ef þessir útreikningar ganga ekki upp? Ekki skilum við verkinu til baka, ekki stendur það ónotað, eða hvað? (Gripið fram í: … lengja í lánunum.) Það er ríkið sem mun taka á sig ábyrgð á þessum framkvæmdum.

Ég ítreka þá skoðun mína að ríkið á að eiga slíkar framkvæmdir, það á að fjármagna þær og undirbúa á sameiginlegum forsendum (Gripið fram í: … ríkið …) eins og unnið er í sambandi við vega- og samgöngumál. Það að fara í svona skollaleik og fara bakdyramegin inn með einstakar framkvæmdir egnir og espar til ófriðar milli svæða, milli íbúa á ólíkum svæðum landsins, og gengur gegn (Forseti hringir.) hagsmunum heildarinnar og eru ekki þau vinnubrögð sem (Forseti hringir.) Alþingi á að viðhafa. Ég ítreka (Forseti hringir.) að mér finnst þessi vinnubrögð fullkomlega óboðleg.