140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[12:13]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vandinn í þessu máli er ekki hvort gera eigi jarðgöng undir Vaðlaheiði heldur hvernig þetta mál hefur verið lagt fram í þinginu. Það er ótrúlegt, virðulegi forseti, að fylgjast með því hvernig málið hefur fullkomlega klúðrast í höndum þeirra sem hafa harðast og mest mælt með þessu frumvarpi.

Alþingi getur ekki sætt sig við að það eigi að veita þessari framkvæmd upp undir 9 milljarða lán og að eigið fé í því fyrirtæki sem taka á við láninu sé um 600 milljónir. Burt séð frá þessu verkefni, burt séð frá kostum þess og göllum, er þessi fjármögnun óásættanleg. Að mínu mati er ekki hægt að líta svo á að hér sé um einhvers konar lánveitingu að ræða þegar svo augljóst er að þetta er fjárfesting. Ríkið ætlar að borga allan kostnaðinn af þessum göngum og ætlar sér síðan vissulega að innheimta veggjöld í framhaldinu en um 95% af öllu fjármagninu sem á að fara til framkvæmdanna koma frá ríkinu og eiginlega er þetta allt frá opinberum aðilum. Það þýðir að þetta er opinber framkvæmd, fyrst og fremst ríkisframkvæmd, og það á að meðhöndla hana sem slíka.

Nú er búið að koma þessu máli þannig fyrir í þinginu, á lokadögum þess, að við erum að lenda í þeirri stöðu að menn þurfi að taka afstöðu til þess annars vegar hvort þeir vilji þessa framkvæmd eða ekki og hins vegar hvort þeir sætti sig við þessa fjármögnun, þessa umgengni um ríkissjóð. Ég hef sagt það, og lýsi því yfir enn og aftur, að ég sætti mig ekki við þetta. Ég mun ekki greiða atkvæði með svona framkvæmd, með svona meðferð á ríkisfjármunum.

Þessi framkvæmd á að vera innan ramma samgönguáætlunar. Ég hefði talið það augljóst þegar menn horfa til þess hvernig framkvæmdin er fjármögnuð. Þetta er ekki einkaframkvæmd. Þetta er opinber framkvæmd. Það er ekki hægt að víkja frá þeim meginsjónarmiðum og þeim leikreglum sem við búum við hvað þetta varðar. Ég hef áður reifað það úr þessum ræðustól að ein leið til að fást við þetta gæti verið sú að ríkið legði fram hlutafé í þetta fyrirtæki, afmarkaði þannig áhættu sína en fæli því hlutafélagi að fjármagna sig á einkamarkaði og að ekki væri hægt að ráðast í neinar framkvæmdir fyrr en framkvæmdin hefur verið fjármögnuð að fullu.

Það breytir töluvert eðli þessa máls. Það er sitt hvað að líta á þetta sem lán til framkvæmdanna, eins og ég hef gagnrýnt af því að það er það augljóslega er ekki, þetta er fjárfesting sem á að greiðast til baka á löngum tíma, og hitt síðan að séð frá ríkinu er þarna um að ræða nýja tegund af framkvæmd hvað það varðar að innheimta á veggjöld á opinbera vegaframkvæmd. Það höfum við ekki gert áður.

Við gerðum þetta í Hvalfjarðargöngunum en með öðrum formerkjum. Þess vegna tel ég að komin séu ákveðin rök fyrir því, og líka í ljósi þess í hvaða stöðu málið er komið í þinginu, að reyna að finna aðrar lausnir. Ég hef leitað að slíkum möguleikum og ef ég sé þá opnast finnst mér sjálfsagt að leggja fram slíkar tillögur, ef menn sjá einhverja möguleika á því að klára annars vegar fjármögnunina með eðlilegum hætti af hálfu ríkisins og hins vegar að hafa þetta innan samgönguáætlunar, innan þess ramma.

Ef menn geta ekki haft þetta innan samgönguáætlunar og náð sátt um það á þeim vettvangi og ríkið fjármagnað þetta eðlilega er málinu siglt í fullkomið strand og ber alfarið að hafna því. En ef til eru leiðir til að ráðast í þessa framkvæmd með eðlilegum hætti er þetta samgöngubót, það þarf ekkert að ræða það, og þetta er eitt af þeim verkefnum sem menn hafa horft til á undanförnum árum. Um þetta var til dæmis rætt í stöðugleikasamkomulaginu á milli ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ. Við sjálfstæðismenn höfum mælt fyrir því, t.d. í efnahagstillögum okkar, að samgönguframkvæmdum yrði flýtt og meira fé látið renna til þeirra til að auka fjárfestingar ríkisins á þessum tímum þannig að það eru ýmis rök fyrir því. En það er ekki, virðulegi forseti, sama hvernig þetta er gert. Það verður að gera þetta þannig að það falli undir samgönguáætlun og að fjármögnun af hálfu ríkisins sé eðlileg. Þetta eru þau sjónarmið sem ég hef hvað þetta varðar.

Ég er með öðrum orðum, virðulegi forseti, ekki á móti þessari framkvæmd en tek undir það sem hefur komið fram hjá mörgum hv. þingmönnum, það verða að vera fyrir því mjög veigamikil rök og það þarf að vera hægt að verja það fjárhagslega að ráðist verði í þetta núna, sérstaklega þegar við horfum til samgönguverkefna eins og Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga sem hafa að mínu mati augljóslega meira gildi hvað varðar möguleika íbúa þeirra svæða til að ferðast til og frá heimabyggð, stunda atvinnu milli staða o.s.frv.

Ég tel að málið væri allt öðruvísi vaxið ef það hefði verið lagt þannig upp að ríkið hefði afmarkað ábyrgð sína með hlutafjárframlagi og einkaaðilum síðan falið að fara í gegnum allar forsendur þessa verkefnis og lána til þess þannig að mat einkaaðila lægi fyrir, þ.e. hvort þeir teldu að lánin yrðu greidd til baka eða ekki. Það er það sem skiptir svo miklu máli ef menn ætla sér að fara út fyrir þann hefðbundna ramma sem er að ríkið ætli sér að fjármagna þetta að fullu yfir í það að einkaaðilar komi að fjármögnun.

Virðulegi forseti. Það fer að líða að lokum þessarar umræðu. Ég hef lagt það til að málinu verði vísað aftur til fjárlaganefndar milli 2. og 3. umr. til frekari skoðunar. Ég ber þá von í brjósti að þegar málið verður skoðað betur í nefndinni sjái menn að ekki er hægt að fara þá leið að kalla lánveitingu eitthvað annað en hún er. Þarna er um að ræða fjárfestingu og lánið inn í framkvæmdina er ekkert lán, það er bara fjárfesting ríkisins og á að meðhöndla sem slíka.