140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algerlega ósammála þessari heimsendaspá hv. þm. Péturs Blöndals fari svo að veiðigjaldafrumvarpið verði samþykkt. Ég held að það sé mikið þjóðþrifamál að ná því í gegn, tryggja þar með þær tekjur inn í samfélagssjóðinn af þeirri arðbæru atvinnugrein sem sjávarútvegurinn er vegna nýtingar á þeirri dýrmætu þjóðarauðlind sem fiskimiðin eru.

Ég verð líka að gera athugasemd við þau orð þingmannsins að með fjárfestingaráætluninni og þeim fyrirheitum sem í henni felast og birtast meðal annars í þeim breytingartillögum sem hér eru gerðar við samgönguáætlun sé verið að safna atkvæðum og gera allt fyrir kjósendur. Við erum að tala um samfélagslega brýn verkefni, verkefni sem hafa líka þurft að bíða vegna þess að við lentum í efnahagshruni árið 2008. Við höfum fram til þessa haft mjög takmarkaða fjármuni til að gera það sem við hefðum viljað gera til að styrkja innviði, t.d. með öflugum samgönguframkvæmdum. Nú er kannski og vonandi komið að því að við getum látið hendur standa fram úr ermum hvað það varðar og ég hefði kannski frekar búist við því að hv. þingmaður mundi samgleðjast okkur og ljá þessum áformum fylgi sitt frekar en vera að kroppa í þau. En auðvitað er allt háð fjármagni sem gert er. Við vitum það og þarf ekkert að fjölyrða um það úr þessum ræðustól.