140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins varðandi heimsendaspána vegna veiðigjaldanna. Það hefur náttúrlega margoft komið fram í umræðunni, þó að þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilji ekki ræða það mikið, að gjaldstofninn sem veiðigjaldið er reiknað út frá er umframarður sem skapast í greininni. Það þýðir að í góðum árum eins og í ár er þessi atvinnugrein aflögufær og getur greitt sinn skerf til samfélagsins, samfélagsins sem hefur alið þessa atvinnugrein af sér. Í erfiðum árum er hún það ekki og þá er tekið tillit til þess við útreikninginn. Þannig að það er engin hætta á því að veiðigjaldafrumvarpið í þeirri mynd sem það er núna gangi af neinu fyrirtæki dauðu.