140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mér sýnist að evruríkin séu að reka sig á fornkveðin sannindi sem öllum er hollt að reka sig á endrum og eins, og er nú svolítið saga mannkyns og ekki síst saga íslensku þjóðarinnar að við rekum okkur á endrum og eins. Þau eru sem sagt að frelsi fylgir ábyrgð. Mér sýnist að við höfum rekið okkur illþyrmilega á þessa staðreynd í hruninu þegar hingað streymdi mjög ódýrt lánsfé og við fórum á svolítið mikið lánafyllirí. Sama gæti auðvitað gerst á Íslandi ef við tækjum upp evru. Evran mundi hafa í för með sér lægri vaxtakostnað og menn þurfa ekkert að vera miklir fræðimenn á sviði hagfræði til að sjá að slíkt gæti auðvitað haft í för með sér endurtekið lánasukk á Íslandi, að einfaldlega streymdi hingað aftur erlent lánsfé og þá mundum við lenda í vanda.

Mér sýnist þetta hafa gerst í mörgum ríkjum Evrópu alveg eins og gerðist hér, að ódýrt lánsfé leiðir til bólu, og Evrópuríkin eru einfaldlega að takast á við það, sem okkur held ég væri hollt að takast á við með þeim, að innleiða aga inn í þetta umhverfi.

Við stöndum frammi fyrir þeim valkostum núna og munum standa frammi fyrir þeim valkostum í vaxandi mæli á næstunni einfaldlega hvort við viljum krónu með höftum eða evru með aga. Ég held að það verði þessir tveir valkostir sem við þurfum að ræða.

Í mínum huga, vegna þess að ég er algjörlega þeirrar skoðunar svona almennt að það þurfi alltaf að gæta að því, fylgir frelsi ábyrgð og ekki síst frelsi í fjármagnsflutningum. Því fylgir með öðrum orðum agi, umgjörð, traustari umgjörð. Og ég held að mín niðurstaða verði alveg óhikað sú að eftir allt þetta sem Evrópa gengur í gegnum muni rísa upp úr öskustónni evra með aga og regluverki sem við munum þá (Forseti hringir.) taka upp ef við viljum ekki hafa krónu í höftum.