140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[13:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Trond Giske, atvinnumálaráðherra Norðmanna, hélt nýlega ræðu á fundi forustumanna í norsku atvinnulífi og gerði að umtalsefni ástandið á evrusvæðinu þar sem skuldirnar og atvinnuleysið og örbirgðin fer ört vaxandi. Með leyfi forseta vitna ég til eftirfarandi orða:

„Þegar ég stend hér í einum glæsilegustu salarkynnum Óslóarborgar og ræði um ástandið í ESB finnst mér eins og ég sitji á efsta þilfari Titanic meðan sjórinn er farinn að flæða inn á neðri þilförin.“

Þetta sagði norski ráðherrann og að því er ég best veit er hann líka krati.

„Þetta er ekki aðeins efnahagsleg kreppa, heldur einnig mikil félagsleg kreppa,“ bætti ráðherrann við og vísaði til hins gífurlega atvinnuleysis meðal ungs fólks í Evrópusambandinu. — „Heil kynslóð á það á hættu að bjóða fram starfskrafta sína á fullorðinsárum án þess að fá nokkuð að gera sem vit er í.“

Þetta er staða Evrópusambandsins og þetta speglast kannski líka í þeirri stöðu sem evran nú er í.

Angela Merkel sagði í Der Spiegel nýlega:

„Við þurfum að búa til pólitíska einingu. Við verðum skref fyrir skref að framselja vald okkar til miðstýrðs valds í Evrópusambandinu því að það hefur svo góða yfirsýn og þess vegna þarf allt vald og öll ákvarðanataka að geta færst þangað inn.“

Frú forseti. Við eigum ekkert erindi þarna inn. Við eigum á hættu að sogast lengra inn í kjölsog Titanic eins og norski ráðherrann lýsir því. Við eigum að afturkalla umsóknina að Evrópusambandinu nú þegar, og vinna á okkar eigin forsendum að lausn okkar mála til framtíðar, hætta þeim blekkingaleik að það sé hægt að sækja gull í greipar Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Nei, alveg eins og Landsbankinn lokaði á Súðavík til þess að bjarga sér og efnahag Landsbankans (Forseti hringir.) gerir Þýskaland nákvæmlega það sama. [Frammíköll í þingsal.]