140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[14:01]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar vandi steðjar að er nauðsynlegt að efnahagskerfi og efnahagslíf þjóðarinnar geti tekið á sig vandann og þjóðlífið allt geti aðlagað sig að komandi áföllum. Það höfum við Íslendingar getað gert vegna þess að við höfum búið við eigin gjaldmiðil og með því móti höfum við getað komið í veg fyrir stóraukið atvinnuleysi. Það er þess vegna sem ekki bara Norðmenn heldur líka Svíar, sem þó eru í Evrópusambandinu, eru með sinn eigin gjaldmiðil og jafnvel Danir hafa ákveðið að danska krónan geti tekið á sig sveiflurnar. Þetta snýst allt um atvinnu og að ríkin geti reist sig sjálf við úr þeim vanda sem þau eiga við að glíma. Ég held að bæði Grikkir og Spánverjar mundu gjarnan vilja getað verið með eigin gjaldmiðil í dag til að minnka það mikla atvinnuleysi sem þær þjóðir eiga við að glíma.

Efnahagsstaða ríkja er mismunandi, Þýskaland er statt í miðjunni og evran sveiflast með atvinnulífi Þjóðverja. Við hins vegar sem búum á jaðrinum eigum að horfa til eigin gjaldmiðils og til framtíðar mun íslenska krónan verða íslensku þjóðlífi til hagsældar.

Það er alveg rétt að við þurfum að koma á aga í íslenskum ríkisfjármálum. Ég hef talað fyrir því og sagt að stærsti og mesti vandi Íslands sé agaleysi í ríkisfjármálum. Því miður hefur lítið verið að gert þó að ég skynji það núna að samstaða sé um að breyta því. Við skulum vona að það verði að veruleika.