140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[14:06]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Evrópusambandið er byggt upp á fallegum hugsjónum sem eru sprottnar upp eftir hörmulegar styrjaldir. Menn sáu að með því að tengja hagsmuni ríkjanna í álfunni saman var hægt að tryggja frið og með samvinnu var hægt að auka lífsgæði íbúanna og tryggja þeim ákveðin réttindi.

Það sem hefur verið að gerast síðustu ár er hins vegar að við sjáum að hagsmunir fjármagnsins eru teknir fram yfir hagsmuni almennings. Við Íslendingar þekkjum þennan leik. Við höfum reynt hann á eigin skinni, hvernig kerfið tryggir fjármagnseigendum eignir sínar en hagsmunir hinna skuldsettu eru alltaf fyrir borð bornir og skiptir þá engu hvort um er að ræða einstaklinga eða ríkið.

Lausnin á skuldavanda er ekki meiri lántaka. Við ræðum hér vanda evrunnar en ljóst er að þau ríki sem nú eru í vanda, þeir bankar sem nú falla hugsanlega eða eru að falla hefðu að öllum líkindum gert það hvort sem er, hvort sem þeir notuðu evru eða ekki, því að þetta er skuldavandi. Það þarf hugrekki til að horfast í augu við hann og að það er ekki til innstæða fyrir þessum skuldum, hvort sem það eru skuldir ríkja, fyrirtækja eða einstaklinga. Þær verða ekki greiddar nema með hörmulegum afleiðingum fyrir íbúa þeirra ríkja sem í vanda eru með tilheyrandi fátækt, atvinnuleysi og niðurskurði á velferð. Á meðan virðist kerfið alltaf tryggja hagsmuni fjármagnseigenda. Þessu þarf að breyta.

Hvað Ísland varðar eigum við auðvitað að stefna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin, algjörlega óháð því hvort evran verður einhvern tímann framtíðarmynt hér á landi eða annars staðar, því að þau eru uppskrift að meiri stöðugleika og heilbrigðari efnahag. En vandi hinna skuldsettu verður ekki leystur með frekari lántöku.