140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

staða evrunnar og áhrif evruvandans á þróun Evrópusamstarfsins.

[14:11]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka sömuleiðis þessa umræðu og tel að við hefðum gjarnan mátt hafa meiri tíma til að fara yfir þessi stóru og mikilvægu mál. Ég óttast nú að það sem næst okkur standi hvað áhrif snertir á Ísland og íslenskt efnahagslíf séu kannski þrjú fyrirbæri, fiskur, ál og ferðamenn. Það er auðvitað augljóst að það er líklegast að neikvæð áhrif af þessu berist fyrst til okkar í gegnum versnandi viðskiptakjör, þyngsli í útflutningsstarfseminni, hnökra í bankaviðskiptum ef þau verða í ólagi í þessum löndum og hugsanlega dregur þetta úr sókn ferðamanna frá Evrópu til landsins.

Í öðru lagi tel ég að lærdómurinn af þessu sé óskaplega einfaldur og hann er hægt að orða á mannamáli. Það er þannig að menn geta ekki til lengdar eytt meira en þeir afla óháð þeirri mynt sem er notuð. Það skiptir bara engu máli. Ef menn eyða meiru en þeir afla kemur það í bakið á þeim og skiptir ekki máli hvort það er í dollurum, evrum eða krónu. Það getur hins vegar vel verið að tímabundið myndist freistniástand til þess að lifa í fölskum gleðiheimi ef menn eru gengnir inn í stórt myntbandalag og þeim bjóðast þar betri kjör en kannski efnahagslegar forsendur viðkomandi lands bjóða upp á, og má segja að það sé að sumu leyti hin dapurlega reynsla Suður-Evrópuríkjanna.

Í þriðja lagi, Ísland á geysilega mikið undir því að það greiðist vel úr vanda Evrópu. Ég verð að segja það, frú forseti, að ég fæ mig ekki með nokkru móti til þess að tala glaðhlakkalega um þessi vandamál þó að ég sé andvígur inngöngu í Evrópusambandið. Mér finnst það ónotalegt þegar ég skynja stundum í umræðum að það er eins og hlakki í mönnum yfir vandræðum Evrópu af því þeir eru á móti því að við göngum í ESB. Getum við nú ekki haldið því aðgreindu?

Kostirnir virðast vera tveir. Annars vegar að Evrópa nái tökum á þessu ástandi með því að þróast í átt til miklu meiri samruna og sameiginlegrar stjórnar í ríkisfjármálum. Sem sagt að við fáum upp úr þessum ósköpum Federal Europe. Hinn kosturinn er ekki félegur heldur, að þetta liðist í sundur, að Evrópa nái ekki tökum á ástandi sínu. Þannig að hvort sem (Forseti hringir.) gerist mun Ísland standa frammi fyrir væntanlega nýrri og breyttri mynd innan fárra missira í besta falli þegar kemur að því að meta okkar tengsl.