140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:14]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Atli Gíslason) (U):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tveimur breytingartillögum, annars vegar við samgönguáætlun árin 2011–2014 á þskj. 1520 og hins vegar við samgönguáætlun árin 2011–2022 á þskj. 1521, sem og nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um sömu áætlanir frá minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar.

Minni hluti tekur undir flest ef ekki öll sjónarmið og rök meiri hlutans í nefndaráliti hans, m.a. um að stefnt skuli að jákvæðri byggðaþróun, að við miðum að greiðum, öruggum, hagkvæmum og umhverfislega sjálfbærum samgöngum með aðgengi og hreyfanleika í samgöngukerfinu í forgrunni og hagkvæmni, að leitast sé við að draga úr hávaða og loftmengun með minni notkun jarðefnaeldsneytis, nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa o.fl. Við fögnum líka þeirri áherslu sem meiri hluti samgöngu- og umhverfisnefndar leggur á almenningssamgöngur bæði í þéttbýli og dreifbýli. Við tökum undir það að lögð skuli sérstök áhersla á liðinn „tengivegir, malbik“ og jafnframt ríka áherslu á viðhald þeirra samgöngumannvirkja sem fyrir eru.

Það er ljóst að viðhaldi er verulega ábótavant og stefnir í umtalsvert tjón af þeim völdum á næstu árum ef ekkert verður að gert en við höfum til þessa lagt of mikla áherslu á nýframkvæmdir á kostnað viðhaldsins. Um þetta eru allir sérfræðingar í vegagerð og samgöngumálum sammála. Það verður að snúa við blaðinu hvað viðhald snertir. Annars kunnum við að verða fyrir milljarðatjóni þegar fram í sækir.

Skortur á viðhaldi kemur auðvitað niður á flutningsgetu og umferðaröryggi og kostnaður við að koma vegakerfinu aftur í viðunandi horf getur orðið margfalt meiri en nýframkvæmdir. Dýrmætar fjárfestingar geta glatast.

Við tökum líka undir með meiri hlutanum um vetrarþjónustu, að hún verði tryggð með tilliti til snjómoksturs og hálkuvarna. Ef því er ábótavant kemur það niður á umferðaröryggi og eðlilegri þróun atvinnu- og þjónustusvæða á landsbyggðinni en einnig kallar fjölgun ferðamanna og lenging ferðamannatímans á úrbætur á þessu sviði. Ég hygg að á liðnum vetri hafi aldrei komið fleiri erlendir ferðamenn til landsins og ferðast um það auk þess að vera ótrúlega mikið á höfuðborgarsvæðinu.

Við tökum undir það að brýnt sé að auka öryggi í samgöngum og við tökum undir öll sjónarmið sem varða svonefnda núllsýn á umferðaröryggi sem gengur út á það að allar aðgerðir sem lúta að samgöngum á landi miða að því að enginn láti lífið í umferðinni. Hvert banaslys og jafnframt hvert líkamstjón sem veldur varanlegri örorku kostar þjóðfélagið í dag hundruð milljóna ef ekki milljarða. Við í minni hlutanum leggjum eins og meiri hlutinn ríka áherslu á að tekið verði tillit til byggðasjónarmiða. Það liggur fyrir í dag að tilteknir landshlutar búa enn við gjörsamlega óviðunandi samgöngur. Þar nefnir meiri hlutinn Vestfirði og við tökum undir það og nefnum sérstaklega Strandirnar. Við þurfum í þessu ljósi að efla sveitarfélögin og styrkja hvert svæði eins og landið allt.

Við erum líka eindregið á því í minni hlutanum að það sé einboðið að við forgangsröðun verkefna sé litið til atvinnusköpunar og að þess vegna séu lögð til mannaflsfrek verkefni. Þau eru fyrst og fremst á sviði viðhalds, tengivega og þess að fækka einbreiðum brúm á landinu. Það kallar á mörg dagsverk og það er mjög atvinnuskapandi í viðkomandi sveitarfélögum eða landsvæðum.

Þegar ég hef lýst sjónarmiðum og röksemdum meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar vil ég nefna að við teljum að verulega skorti á að þessum forsendum og þessum rökum sé fullnægt í tillögum meiri hlutans. Þá á ég sérstaklega við nauðsynlegt viðhald, umferðaröryggi, byggðasjónarmið, forgangsröð og fleira sem ég nefndi áðan. Við gerum því fáar en markvissar breytingartillögur sem allar ganga út frá þessum sjónarmiðum og styðjast við rök sem meiri hlutinn setur fram í sínu nefndaráliti.

Í fyrsta lagi viljum við að gengið verði lengra í að flýta brýnum samgöngubótum og viðhaldi og við leggjum til að framkvæmdum við tengivegi verði flýtt, sett verði aukið fjármagn í þessar framkvæmdir á fyrsta og öðru tímabili samgönguáætlunar. Minni hlutinn áréttar mikilvægi þess að sett verði aukið fjármagn í þessar framkvæmdir þar sem tengivegir eru tæpur helmingur alls vegakerfis landsins. Allir þingmenn, sérstaklega landsbyggðarþingmenn, þekkja ástand tengiveganna. Hér er um að ræða gríðarlegar samgöngubætur sem skapa mikla atvinnu heima í héraði. Við leggjum til að flýta framkvæmdum við liðinn „tengiliðir, malbik“ þannig að 4 milljarðar komi til viðbótar inn í þann framkvæmdaflokk og skiptist jafnt á fjögur tímabil samgönguáætlunar.

Í öðru lagi leggjum við til að framkvæmdum við breikkun einbreiðra brúa verði flýtt enn frekar. Það er mat minni hluta að framkvæmdir þessar séu mikilvæg öryggisráðstöfun en einbreiðar brýr valda verulegri slysahættu á þjóðvegum, sérstaklega þjóðvegi 1, og þar er ástandið í mörgum kjördæmum til vansa. Bara frá Kirkjubæjarklaustri að Höfn í Hornafirði eru upp undir 30 einbreiðar brýr og þarna fara um á annað hundrað þúsund bílar á hverju ári, og meira á sumrin, á annað hundrað þúsund ferðamenn koma þarna yfir sumarið.

Við leggjum í þriðja lagi til að framkvæmdum við Hornafjarðarfljót verði flýtt og að þær hefjist árið 2014. Það er mat minni hluta að ný brú yfir Hornafjarðarfljót sé mikil samgöngubót á þjóðvegi 1 og fyrir byggðarlagið en ljóst er að brýn þörf er á að ráðast sem fyrst í þessar framkvæmdir. Ný brú hefur í för með sér verulega aukið umferðaröryggi, 11 kílómetra styttingu á þjóðvegi 1 og mun fækka einbreiðum brúm um sex á þessu svæði. Verkefnið er auk þess mjög arðsamt og var ein forsenda sameiningar sveitarfélaga á suðausturhluta landsins. Þeir sem hafa farið um núverandi brú yfir Hornafjarðarfljót vita að hún er hættuleg. Hún er úr sér gengin, hún er einbreið og mishæðótt þannig að það að keyra um hana er eins og að fara í rússíbana. Þegar maður kemur að brúnni sér maður ekki bíla sem eru við hinn endann, maður sér þá ekki fyrr en upp á brúna er komið. Þarna liggur oft nærri slysum og þarna fara um gríðarlegir þungaflutningar. Þetta er ekki vansalaust og það kallar á tafarlausar úrbætur eins og landsbyggðarþingmenn þekkja, sérstaklega í Suðurkjördæmi og á norðausturhorninu.

Í fjórða lagi leggjum við til að framkvæmdir við endurgerð vegar og brúar um Bjarnarfjarðará verði flýtt um tvö ár. Um er að ræða afar mikilvægt byggðamál en framkvæmdin er liður í að bæta samgöngur til Bjarnarfjarðar og Árneshrepps. Nýr vegur yfir Bjarnarfjarðarháls ásamt brú yfir Bjarnarfjarðará var á fyrri samgönguáætlun. Verkið var með fjárveitingu og tilbúið til útboðs haustið 2008. Þá var það skorið niður sem hluti af aðgerðum ríkisvaldsins vegna efnahagshrunsins. Þar er hægt að hefja framkvæmdir með skömmum fyrirvara.

Í fimmta lagi leggjum við til að framkvæmdum við endurgerð vegar um Veiðileysuháls í Árneshreppi verði flýtt um tvö ár. Minni hlutinn áréttar að framkvæmdin sé mikilvægt byggðamál sem bætir vetrarsamgöngur til Árneshrepps og sumarsamgöngur reyndar líka. Árneshreppur á Ströndum er á margan hátt einstök jaðarbyggð, landfræðilega afmarkaður, tiltölulega þéttbýll og þar er að finna minjar um búsetu, atvinnuhætti og sögu þjóðarinnar allt frá landnámi. Lagt er til að þjóð og þing taki höndum saman um að treysta búsetu á Árneshreppi á Ströndum, að meginframkvæmdir eigi sér stað á næstu fjórum árum en vinnunni ljúki á gildistíma samgönguáætlunar. Íbúar Árneshrepps hafa sýnt mikinn dugnað og frumkvæði í að byggja upp stoðgreinar eins og ferðaþjónustu með hefðbundnum búskap og trilluútgerð. Það er talið að um 10 þús. manns hafi heimsótt svæðið árlega yfir sumartímann. Nú er hins vegar komið að þolmörkum áframhaldandi heilsársbúsetu og mikilvægt að Alþingi komi fyrir hönd þjóðarinnar með myndarlegum og afdráttarlausum hætti að málinu og leggi sitt af mörkum til að tryggja byggð og heilsársbúsetu í Árneshreppi. Ástand samgöngumála þar og á Ströndum er með öllu óviðunandi, sérstaklega að vetrarlagi.

Í sjötta lagi leggjum við til að 500 milljónir verði veittar til undirbúnings og gerðar jarðganga um Reynisfjall á tímabilinu 2019–2022. Minni hlutinn bendir á að nú þegar skapar aukin umferð flutningabíla í gegnum íbúðahverfið í Vík mikla slysahættu. Einnig verður að hafa í huga hættu á grjóthruni, aurskriðum og snjóflóðum. Það er mat minni hluta að vegurinn fyrir Reynisfjall sé einn erfiðasti farartálmi á þjóðvegi 1 allt austur á land. Það er því mikilvægt að Alþingi sýni þessu verki og þessum brýnu úrbótum skilning og að þetta komi inn á síðasta tímabil samgönguáætlunar.

Loks leggjum við í sjöunda lagi til að 2.250 milljónir til viðbótar verði veittar í viðhald samgöngumannvirkja sem skiptast jafnt á tímabilinu 2013, 2014 og 2015–2018. Ég ítreka það sem ég sagði fyrr í ræðu minni um ástand vega á landinu þar sem ekki hafa verið til peningar fyrir viðhaldi nokkur undanfarin ár. Ef ekki verður brugðist við er það skoðun mín að tjónið á samgöngumannvirkjum verði umtalsvert meira en þær 2.250 milljónir sem við leggjum til í þetta viðhaldsverkefni á þeim árum sem ég nefndi. Eins og ég segi er þetta líka afar atvinnuskapandi verkefni og kemur þannig inn í öll byggðarlög landsins.

Minni hluti áréttar að lokum að hann er aðili að sérstakri bókun um forgangsröðun jarðganga á fylgiskjali I með nefndaráliti meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Minni hlutinn leggur til að tillögurnar verði samþykktar með framangreindum breytingum sem lagðar eru fram á sérstökum þingskjölum. Að þessum breytingartillögum og nefndarálitinu standa hv. þingmenn Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason.