140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að það er gert ráð fyrir því að hluti veiðigjaldanna renni til þessa verkefnis. Við erum að tala um samgönguáætlun frá 2011–2022. Nú liggur ekki fyrir niðurstaða um það hver veiðigjöldin verða en ég hygg að flestir þingmenn séu sammála um að hæfilegt gjald verði lagt á auðlindina. Menn greinir hins vegar á um hversu mikið það eigi að vera og menn greinir á um ruðningsáhrifin af veiðigjöldunum. Ég benti á það í ræðu minni á föstudaginn um veiðigjöldin að ekki er fullrannsakað hvaða áhrif þetta hefur á sveitarfélög, kjör sjómanna og annað slíkt. Það er allsendis óvíst hvort þetta gangi eftir en meiri hlutinn er að tala um 25 milljarða ef ég man rétt og það ætti að vera hægur vandi að afla þess fjár á tíu ára tímabili.

Ég er sammála um viðhaldið, (Forseti hringir.) við Íslendingar erum að spara aurinn og kasta krónunni þar sem viðhald er annars vegar.