140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[14:37]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Atli Gíslason) (U) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég hef verið hlynntur strandsiglingum fyrst og fremst af umhverfissjónarmiðum alla tíð. Það er hins vegar ekki einfalt að segja já. Það eru ýmsar örður á þeirri leið með strandsiglingar og kostir og ágallar sem hægt er að skoða. En umhverfislega séð er þetta brýnt og kallar eiginlega mest á öflugt skipulag og að sveitarfélög og atvinnurekendur, sérstaklega í fiskverkun, taki höndum saman og skipuleggi þetta betur. Ég andmæli því ekki að flutningar á fiski landshorna á milli séu nauðsynlegir, hluti skýringarinnar á þessum miklu flutningum milli landshluta er að sérhæfð öflug vinnsla verður að geta unnið sem mest af sömu tegund. Sum fyrirtækin eru með starfsstöðvar víða. Skipuleggja þarf siglingarnar vel og er mjög brýnt að lagt verði í þetta, bæði vegna umhverfislegra áhrifa og kostnaðar.

Ég er sammála hv. þingmanni um að í þessari samgönguáætlun hafi verið brotið blað með heildstæðri hugsun og annað og ég tek undir hrós um það. Stílbrotið Vaðlaheiðargöng veldur mér hins vegar vonbrigðum, þau eru tekið út úr og hafa ruðningsáhrif á aðrar framkvæmdir og þar eru lögin um ríkisábyrgð tekin úr sambandi. Það finnst mér vera 2007-dæmi en í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var talað um lagasniðgöngu eða þá að laga lögin til. En ég tek undir sjónarmið hv. þingmanns um strandsiglingar, mál sem hann þarf væntanlega varla að spyrja um því hann gjörþekkir það, hefur verið flutningsmaður slíkra tillagna um árabil.